Fréttasafn30. okt. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Lóðaskortur flöskuháls fyrir hagkvæmt húsnæði

Í Morgunblaðinu er rætt við Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, um ný hlutdeildarlán sem taka gildi um mánaðarmótin. Hún segir það vilja félagsmanna SI að mæta eftirspurn eftir hagkvæmu húsnæði, en lóðaskortur og kröfur um þéttingu byggðar séu flöskuháls í þeirri þróun. Hvað hlutdeildarlánin varðar segir hún að hugmyndir verktaka séu ekki að byggja upp heilu hverfin fyrir það úrræði, heldur sé almenna stefnan sú að viðhalda blandaðri byggð eins og hún hefur þróast undanfarin ár.

Í fréttinni er vitnað til viðhorfa félagsmanna SI sem birtast í könnun þar sem í ljós kemur mjög afgerandi afstaða til núverandi ástands. Um 80% hallist að því að skortur á lóðaframboði komi í veg fyrir hagkvæma húsnæðisuppbyggingu og hagkvæm hús verði ekki byggð á þéttingarreitum. Einnig telur svipað hlutfall svarenda að strangir deiliskilmálar komi í veg fyrir nýsköpun í hönnun sem gæti lækkað byggingarkostnað. Könnunin gefi einnig sterklega til kynna að bæta þurfi samræmingu milli sveitarfélaga, stytta ferla og gera þá rafræna. Athygli veki að 80% svarenda telji að huglægt mat byggingarfulltrúaembætta hafi áhrif á yfirferð hönnunargagna. „Þetta undirstrikar það sem við höfum verið að segja undanfarin ár,“ segir Jóhanna Klara.  

Þá er greint frá því í fréttinni að 20. október sl. hafi Samtök iðnaðarins sent bréf til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu með ákall um samtal til lausna og að sögn Jóhönnu hafi engin viðbrögð borist. 

Í fréttinni kemur fram að eitt af yfirlýstum markmiðum laganna sé að stuðla að uppbyggingu nýrra og hagkvæmra íbúða, sem einnig sé skilyrði fyrir lánveitingu á höfuðborgarsvæðinu. Gert sé ráð fyrir því að ríkið muni veita lán til ca. 400 slíkra íbúðarkaupa á ári, næstu tíu árin. Þá segir að til þess að átta sig betur á samhengi hlutanna sé gagnlegt að horfa til þess hvert umfang nýbyggðra íbúða hafi verið á ári, t.d. í Reykjavík, en þær hafi verið öðrum hvorum megin við 2.500 síðustu ár. Viðmælendur blaðamanns séu á því að sú viðbót sem þetta kerfi geti haft í för með sér sé hófleg og raunhæf en bendi þó á að samdráttur í byggingariðnaði sé staðreynd sem megi rekja til tveggja meginþátta: torsóttrar fjármögnunar og lóðaskorts.

Morgunblaðið, 30. október 2020.

Morgunbladid-30-10-2020-2-_1604060821597