Fréttasafn1. nóv. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Lóðaskortur í Reykjavík en ekki fjármagnsskortur

Í frétt Morgunblaðsins er fullyrðingum borgarstjóra Reykjavíkur vísað til föðurhúsanna þar sem hann hélt því fram á fundi að bankar hefðu sérstaklega veigrað sér við því að lána til uppbyggingar í Reykjavík og að það kunni að skýra þann íbúðaskort sem nú sé í sveitarfélaginu. Í fréttinni kemur fram að Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sé ósammála þeirri staðhæfingu og segir aðildarfélög samtakanna frekar vísa til takmarkaðs framboðs lóða frá borginni. Í fréttinni kemur fram að Sigurður segist ekki kaupa þá staðhæfingu að bankarnir hafi dregið úr lánveitingum til fasteignaverkefna í Reykjavík – og að minna sé byggt af þeirri ástæðu. Í nýlegri talningu SI hafi komið í ljós að um þessar mundir séu um 1.900 íbúðir í byggingu í borginni, eða 30% færri en var fyrir tveimur árum. Að mati fulltrúa aðildarfélaga SI ráði takmarkað framboð af lóðum í höfuðborginni þar mestu um stöðu mála.

Einnig er rætt við Eyþór Arnalds, oddvita sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem segir það fínt að fá staðfestingu á því að of fáar íbúðir hafi verið byggðar í Reykavík en að skella skuldinni á bankana sé hins vegar röng nálgun. Þá segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, að staðhæfing borgarstjóra um að bankarnir hafi dregið úr lánum til húsnæðisuppbyggingar sé ekki rétt mál. „Þetta er í algjörri andstöðu við það sem við höfum upplifað.“ Jafnframt er vísað í skriflegt svar frá Landsbankanum sem segir að bankinn hafi ekki dregið úr útlánum til íbúðaverkefna.

Morgunblaðið, 30. október 2021.

Morgunbladid-30-10-2021