Fréttasafn



28. des. 2021 Almennar fréttir Innviðir Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Loftslags- og orkumál eitt stærsta viðfangsefni nýs árs

Loftslags- og orkumál verða eitt stærsta viðfangsefni nýs árs. Þessi mál eru samofin enda er nýting endurnýjanlegrar orku lykillinn að árangri í loftslagsmálum á heimsvísu. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni í Kjarnanum sem ber yfirskriftina Á grænni grein. Hann segir önnur ríki vinna hörðum höndum að því að framleiða hreina orku í meira mæli og þar hafi okkar stærsta framlag til loftslagsmála legið hingað til en við, líkt og önnur ríki þurfum að afla meiri hreinnar orku. Framundan séu þriðju orkuskiptin sem eigi sér stað í samgöngum þegar olíu sé skipt út fyrir hreina orkugjafa eða rafeldsneyti. Framtíðin sé háð orku og því þurfi nauðsynlega að bregðast við með aukinni orkuöflun og uppbyggingu innviða í takt við orkuspár hins opinbera og þarfir landsmanna. Það sé sannarlega verk að vinna enda sé framkvæmdatími mældur í árum.

Efnahagslegur ávinningur er drifkraftur í grænni iðnbyltingu

Sigurður segir grænu umskiptin sem nú eigi sér stað séu iðnbylting út af fyrir sig en þau séu komin til vegna ákalls ríkja heims til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Vilji ríkja heims og atvinnulífs til aðgerða kalli á miklar fjárfestingar á næstu árum og áratugum í nýsköpun og nýrri tækni sem og í orkuskiptum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hann segir að grænu umskiptin munu eiga það sameiginlegt með öðrum iðnbyltingum að drifkraftur breytinga sé efnahagslegur ávinningur. Það þýði að nýjar lausnir verði bæði hagkvæmari en þær sem fyrir séu auk þess að hafa minni umhverfisleg áhrif og helst engin. Í þessu felist tækifæri. 

Tími aðgerða runninn upp

Sigurður segir að á móti komi að það verði áskorun að tryggja að umskiptin séu réttlát. Ólíkt öðrum iðnbyltingum þá sé þessi skipulögð af stjórnvöldum og árangur muin ekki nást nema með samvinnu við atvinnulífið. Hann segir stofnun Grænvangs, samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um orkuþekkingu og grænar lausnir, hafi því verið mikilvægt skref í átt að árangri. Þannig séu tækifærin á þessu sviði sótt á sama tíma og atvinnulíf og stjórnvöld gangi í takt og hvetji hvort annað til aðgerða í loftslagsmálum. Vitundarvakning hafi skilað tilætluðum árangri en tími aðgerða sé runninn upp.

Hátt í eitt hundrað grænar lausnir í íslensku atvinnulífi kortlagðar

Þá kemur fram í grein Sigurðar að Loftslagsvegvísir atvinnulífsins sem gefinn var út um mitt ár 2021 sé eitt skref atvinnulífsins á leið kolefnishlutleysis. Helstu greinar atvinnulífs hafi lagt af stað og mátað sig við verkefnið. Innan iðnaðar megi nefna fyrirtæki í stóriðju sem hafi náð miklum árangri nú þegar við að draga úr útblæstri en losun hafi dregist saman um 75% á hvert framleitt tonn frá árinu 1990, fyrirtæki í byggingariðnaði sem vinni af metnaði að aðgerðaáætlun um kolefnishlutleysi og svo tæknifyrirtæki sem hafi þróað grænar lausnir til dæmis á sviði rafeldsneytis og niðurdælingar koltvíoxíðs. Á vettvangi Grænvangs hafi hátt í eitt hundrað lausnir á þessu sviði í íslensku atvinnulífi verið kortlagðar sem sýni glöggt þá grósku sem sé til staðar. Hann segir fyrirtæki landsins hafa metnað og vilja til að gera meira og betur í þessum málum eins og dæmin sanni og á sviðum orkuskipta og nýsköpunar liggi helstu tækifæri atvinnulífsins til aðgerða.

Beina fjármunum í grænar lausnir

Í greininni segir Sigurður að til að ná tilsettum árangri þurfi stjórnvöld að móta umgjörð sem sé hvetjandi til nýsköpunar og fjárfestinga í nýrri tækni og orkuskiptum. Það sé ekki nóg að setja upp boð og bönn heldur þurfi jákvæða hvata. Beina þurfi fjármunum í réttan farveg grænna lausna. Það sé umhugsunarefni í því samhengi hversu lítill Loftslagssjóður sé og hve miklum fjármunum hann hafi varið í vitundarvakningu á sama tíma og beinna aðgerða sé þörf. Hann segir að á sama tíma verji fyrirtækin á annan milljarð króna á ári í kaup á losunarheimildum en þeir fjármunir rati hins vegar ekki í græn verkefni sem sé þó tilgangur kerfisins. Þessu þurfi að breyta ef ná eigi settum markmiðum.

Nauðsynlegar aðgerðir í öflun orku og styrkingu innviða

Í niðurlagi greinarinnar segir Sigurður að ekki verði lengur beðið með nauðsynlegar aðgerðir hvað varði öflun orku og styrkingu innviða til að tryggja landsmönnum næga orku og örugga orku. Þegar framkvæmdatími sé mældur í árum liggi í hlutarins eðli að ákvarðanir í þessum málum séu ekki teknar í flýti. „Við eflum samkeppnishæfni Íslands og þar með lífskjör allra landsmanna með aðgengi að nægu magni raforku til að mæta kröfum framtíðarinnar. Slík nálgun er líka eitt mikilvægasta framlag okkar til umhverfis- og loftslagsmála.“

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.