Fréttasafn



8. mar. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Orka og umhverfi

Loftslagsmarkmið móti ákvarðanir um orkuframleiðslu og -flutninga

Loftslagsmarkmið Íslands þurfa að móta í ríkari mæli ákvarðanir um orkuframleiðslu og orkuflutning hér á landi en hvoru tveggja er grundvöllur fyrir orkuskipti í samfélaginu og frekari vöxt atvinnuvega. Orkuöryggi kallar á aukna raforkuframleiðslu og öflugra flutnings- og dreifikerfi sem aftur kallar á heildrænt skipulag orkukerfisins og samþættingu verkferla. Hér er hægt að nálgast skýrsluna sem ber heitið Staða og áskoranir í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum.

Á vef Stjórnarráðsins segir að þetta séu meðal niðurstaðna skýrslu starfshóps sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði í byrjun ársins til að fara yfir stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum í ljósi markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum. Starfshópinn skipuðu Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur sem var formaður, Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur og Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hjá Samtökum iðnaðarins auk þess sem Erla Sigríður Gestsdóttir, sérfræðingur og Magnús Dige Baldursson, lögfræðingur frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu störfuðu með starfshópnum. Þá var haft samráð og sjónarmiða aflað meðal haghafa.

Í skýrslunni eru settar fram sex sviðsmyndir um raforkuþörf landsins til næstu tveggja til fjögurra áratuga, þar af fjórar sem taka mið af loftslagsmarkmiðum Íslands. Sviðsmyndirnar spanna allt frá lítilli sem engri viðbót við raforkuframleiðslu Íslands til ríflega tvöföldunar hennar eða 124% aukningar fram til ársins 2040. Horft er til þess að orkuþörf vegna fullra orkuskipta verði mætt með aukinni orkunýtni og orkusparnaði fyrir tilstilli nýrrar tækni og með því að auka afl núverandi virkjana auk nýrra virkjana. 

Á vef Stjórnarráðsins er hægt að nálgast upptöku frá fundi þar sem skýrslan var kynnt.