Fréttasafn19. okt. 2015 Orka og umhverfi

Loftslagsvænar lausnir Norðurlandanna í öndvegi í París

Umhverfisvænar lausnir voru í brennidepli á  vörusýningunni World Efficiency sem haldin var í París í vikunni. Íslandsstofa var með bás á sýningunni tileinkaðan lausnum frá íslenskum fyrirtækjum í sjávarklasanum. Lausnirnar byggja m.a. á betri orkunýtingu, minni olíunotkun og betri hráefnisnýtingu. Einnig var boðið upp á vinnustofur um ólíkar lausnir, þ.á.m. um hringrásarhagkerfið þar sem íslenski sjávarútvegsklasinn var m.a. til umræðu.

 

Sýningin er haldin rétt rúmum sex vikum fyrir upphaf ríkjaráðstefnu aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, COP21, og gefur þar að líta ýmsar lausnir fyrirtækja sem hjálpa við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

 

Bryndís Skúladóttir, sem var fulltrúi Samtaka iðnaðarins á sýningunni, segir að í aðdraganda COP21 fundarins  sé talsvert rætt um ábyrgð fyrirtækja í loftslagsmálum. Atvinnulífið geti lagt mikið af mörkum með því að leggja fram nýjar tæknilausnir og innleiða þær. Íslendingar standa framarlega þegar kemur að því að bjóða slíkar lausnir í sjávarútvegi.  

Norræna ráðherranefndin stóð að baki sameiginlegri þátttöku Norðurlandanna í sýningunni og voru sameiginleg skilaboð þeirra þau að fjárfesting í endurnýjanlegri orku og orkunýtni sé ekki eingöngu góð fyrir umhverfið heldur einnig arðbær til framtíðar. 

 

 

Sjá frétt utanríkisráðuneytisins um þátttöku Íslands í sýningunni.