Fréttasafn



12. nóv. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Lög um opinber innkaup mikilvægt tæki til að verja almannafé

Lög um opinber innkaup eru grundvallartæki til að verja almannafé og tryggja heilbrigða samkeppni en brot á löggjöfinni er afar dýrkeypt fyrir samfélagið. Þetta segir Lilja Björk Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur SI, í grein í Viðskiptablaðinu þar sem hún spyr hver fylgist með opinberum innkaupum. Hún segir að fjársýslan vinni að bættu aðgengi að gögnum með þróun mælaborðs sem stuðli að betri yfirsýn yfir innkaup opinberra aðila, sem séu afar jákvæð tíðindi. Samhliða þessu þurfi að tryggja fræðslu og að innan stjórnkerfisins sé aðili til þess bær að hafa eftirlit með opinberum kaupendum. Í Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku hafi samkeppniseftirlitinu til að mynda verið falið sérstakt hlutverk í tengslum við framkvæmd opinberra innkaupa, þ.m.t. með því að gefa út leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd útboðsreglna. Lilja segir að til mikils sé að vinna að eftirfylgni við regluverkið sé tryggt enda almannafé undir.

Opinberum stofnunum ekki í sjálfsvald sett hvernig skattfé er ráðstafað

Í greininni kemur fram að hið opinbera kaupi vörur, þjónustu og verk fyrir hundruði milljarða króna árlega og hafi því með vali sínu mikil áhrif á markaðinn. Um þessi kaup gildi lög um opinber innkaup sem eigi að tryggja jafnræði, gagnsæi og hagkvæmni við opinber innkaup. Markmiðið sé enda að stuðla að ábyrgri meðferð opinbers fjár og auka heilbrigða samkeppni samfélaginu til heilla. Lilja segir að þjónustukaup embættis ríkislögreglustjóra af ráðgjafafyrirtæki fyrir 160 milljónir króna sem hafi átt sér stað á um fimm ára tímabili hafi ratað í fréttir og hafi verið brugðist við. Verkefnið hafi ekki sett í útboð, enginn samningur var gerður við viðkomandi fyrirtæki og ekki var farið í verðsamanburð. Málið er áminning um að opinberum stofnunum er ekki í sjálfsvald sett hvernig skattfé er ráðstafað, gerð er sú krafa að regluverkinu sé framfylgt með framkvæmd útboða til að fá besta mögulega verð fyrir vöru, þjónustu eða verk sem markaðurinn býður upp á hverju sinni. Það er lágmarkskrafa að vel sé farið með opinbert fé.

Ekkert eftirlit með framfylgd laga um opinber innkaup

Lilja segir að staðreyndin sé sú að ekkert stjórnvald fari með eftirlit með framfylgd laga um opinber innkaup og sé því einkaaðilum á markaði falið eftirlit í formi kæra til kærunefndar útboðsmála. Fyrirtæki verði að geta borið traust til opinberra aðila og verið fullviss um að þau njóti jafnræðis í samkeppni um viðskipti hins opinbera og að útboðsskylda sé virt í hvívetna. Hér spili fræðsla til ríkisaðila, viðhorf og eftirlit með útboðsskyldu lykilhlutverk. Hún segir að því miður er þessu verulega ábótavant hérlendis. Einungis hluti þeirra álitamála sem upp koma eru kærð en ýmsar ástæður geta verið fyrir því að fyrirtæki kjósi að leggja ekki fram kæru í eigin nafni gegn opinberum stofnunum. Eru þá ótalin þau opinberu innkaup sem eru útboðsskyld en eru ekki upplýst og fá að fljóta sofandi að feigðarósi á kostnað almennings.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Viðskiptablaðið, 12. nóvember 2025.

Vidskiptabladid-12-11-2025_1