Lög um skattafrádrátt R&Þ tryggi fyrirsjáanleika og gagnsæi
„Við höfum áhyggjur af stöðunni og erum að taka utan um hana með okkar félagsmönnum, sem hafa miðlað til okkar fjölmörgum ábendingum,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í frétt Morgunblaðsins um fund sem samtökin boðuðu með Rannís í vikunni þar sem yfir 50 fulltrúar félagsmanna mættu en tafir hafa orðið á afgreiðslu Rannís á umsóknum um skattafrádrátt vegna rannsókna og þróunar. Þá segir Sigríður að nú standi yfir heildarendurskoðun á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og SI fylgist náið með þeirri vinnu. Hún segir mikilvægt að lögin tryggi fyrirsjáanleika og gagnsæi þannig að fyrirtæki í hugverkaiðnaði geti gert langtímaáætlanir
Ríkur vilji hjá stjórnvöldum að byggja áfram upp sterkt stuðningskerfi nýsköpunar
Sigríður segir í frétt Morgunblaðsins að fjárfesting í nýsköpun hafi aukist verulega síðustu ár og umsóknum til Rannís hafi fjölgað mikið sem sé jákvætt en sé líklega að leiða af sér einhvers konar vaxtarverki í kerfinu. „Fundurinn var góður og upplýsandi og liður í áframhaldandi vinnu okkar við að tryggja að framkvæmd regluverksins verði skýr, gagnsæ og í samræmi við tilgang laganna. Við eigum í góðu og uppbyggilegu samtali við bæði Rannís og fjármála- og efnahagsráðuneytið og berum traust til þeirra aðila sem að þessu koma. Við höfum fulla trú á að sá hnútur sem kerfið hefur lent í verði leystur farsællega. Það virðist vera ríkur vilji hjá stjórnvöldum til að byggja áfram upp sterkt stuðningskerfi nýsköpunar í landinu, miðað við ummæli ráðherra og fyrirheit í nýju fjárlagafrumvarpi.“
Jafnframt kemur fram í fréttinni að í byrjun mánaðarins hafi forsætisráðherra nefnt að það væri markmið að fjárfesting í rannsóknum og þróun færi í 3,5% af landsframleiðslu en hlutfallið sé í dag um 2,7% og að um 70% fjárfestingarinnar komi frá einkaaðilum. „Þessir skattahvatar eru hryggjarstykkið í stuðningsumhverfi nýsköpunar og mikilvægasti hvatinn fyrir vöxt hugverkaiðnaðar hér á landi. Þessi iðnaður skapaði 309 milljarða í útflutningstekjur á síðasta ári og hefur vaxið mikið,“ segir Sigríður í frétt Morgunblaðsins.
Morgunblaðið / mbl.is / mbl.is, 25. september 2025.