Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að samningsskilmálar sem RÚV setur gagnvart sjálfstæðum kvikmyndaframleiðendum stangist á við reglur Creative Europe Media og reglur um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi samkvæmt lögfræðiáliti sem unnið var að beiðni Samtaka iðnaðarins og Sambands íslenskra kvikmyndagerðarmanna. Í Fréttablaðinu segir að álitið hafi verið gert í kjölfar krafna RÚV um að fá stöðu samframleiðanda í sjónvarpsverkefnum sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda og vegna ákvörðunar RÚV um að fá eignarhlutdeild í verkefnum þegar tekið sé tillit til endurgreiðslu framleiðslukostnaðar. Möguleiki sé á því að samningsskilmálar RÚV leiði til þess að kvikmyndaverkefni séu óstyrkhæf. Þá segir að fram komi í niðurstöðum lögfræðiálitsins að þegar brotið sé á reglum Creative Europe Media gæti framleiðandi þurft að endurgreiða styrki.
Frettabladid.is / Vísir.is, 27. mars 2019.
Sterkar vísbendingar um að háttsemi stangist á við lög og reglur
Í Morgunblaðinu í fyrradag var sagt frá því að Samtök iðnaðarins (SI) hafi óskað fundar með mennta- og menningarmálaráðherra vegna samningsgerðar RÚV við sjálfstæða kvikmyndaframleiðendur. SI telji sterkar vísbendingar uppi um að samningskröfur RÚV feli í sér háttsemi sem stangist á við lög og reglur og geti þ.a.l. valdið kvikmyndagreininni óbætanlegum skaða. Að mati samtakanna sé tilefni til að ætla að samningsskilmálar sem RÚV hafi sett gagnvart sjálfstæðum kvikmyndaframleiðendum stangist á við þær reglur sem um kvikmyndagreinina gilda, þá einkum reglur um úthlutun styrkja úr sjóðum Creative Europe Media og reglur um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.
Í fréttinni kemur fram að SI fari fram á að ráðuneytið endurskoði afstöðu sína í málinu með hliðsjón af nýju lögfræðiáliti sem aflað hafi verið að beiðni SI og Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, eins aðildarfélaga samtakanna. Tilefni álitsins séu m.a. kröfur RÚV um að fá stöðu samframleiðanda í sjónvarpsverkefnum sem sjálfstæðir framleiðendur hafa þróað á undanförnum árum og væntanleg séu í tökur á allra næstu misserum. Jafnframt að við ákvörðun á eignarhlutdeild RÚV í verkefnum verði tekið tillit til endurgreiðslu framleiðslukostnaðar en í álitsgerðinni segi m.a. að samkvæmt reglum um úthlutun úr sjóðum Creative Europe Media megi sjónvarpsfyrirtæki ekki teljast samframleiðandi í styrkhæfu verkefni nema fyrirtækið taki bæði verulega fjárhagslega áhættu vegna viðkomandi verkefnis og taki þátt í skipulagningu og fjárhagslegu utanumhaldi.
Morgunblaðið / mbl.is, 25. mars 2019.