Lögreglan sinnir ekki eftirliti með lögum um handiðnað
„Samtök iðnaðarins hafa ítrekað bent á að lögreglan, sem hefur eftirlit með því hvort fyrirtæki og einstaklingar starfi í samræmi við lög um handiðnað, sé ekki að sinna því verkefni,“ segir Björg Ásta Þórðardóttir, yfirlögfræðingur SI, í frétt Morgunblaðsins.
Í fréttinni kemur fram að undir handiðnað falli til dæmis greinar eins og húsasmíði, rafvirkjun, málaraiðn, húsgagnasmíði, snyrtifræði, hársnyrtiiðn og fleira þar sem hendur koma við sögu við veitingu þjónustu. „Því miður hefur lögreglan ekki brugðist með viðhlítandi hætti við brotum á þeirri löggjöf, þrátt fyrir að mörg mál hafi ratað á hennar borð. Jákvætt er að lögreglan vísi málum vegna brota á vinnulöggjöf og skattalöggjöf til viðeigandi stjórnvalda en samtökin telja að réttast væri að eftirlitið með réttindalausum aðilum á markaði væri samkvæmt lögum hjá öðrum eftirlitsaðilum sem eru betur til þess fallnir. Eins og staðan er hefur lögreglan ein eftirlit með lögum um handiðnað en því eftirliti sinnir hún ekki. Því miður er það staðan og við því þarf að bregðast,“ segir Björg Ásta en svarta hagkerfið virðist blómstra sem aldrei fyrr.
Morgunblaðið, 6. september 2023.