Lögvernduð starfsheiti hársnyrta og snyrtifræðinga vottuð á Noona
Nú geta þjónustuveitendur í hársnyrtiiðn og snyrtifræði vottað lögvernduð starfsheiti sín á bókunarþjónustu Noona. Með þessu geta neytendur tekið upplýstari ákvörðun um val á vottuðum fagaðilum eins og í tilviki hársnyrta og snyrtifræðinga.
Samtök iðnaðarins hafa gagnrýnt skort á eftirliti með ólögmætri starfsemi í handiðnaði. Samkvæmt lögum um handiðnað nr. 42/1978 skulu löggiltar iðngreinar reknar undir forstöðu meistara og hafa einungis meistarar, sveinar og nemendur í löggiltum iðngreinum rétt til að starfa í þeim greinum. Slík lögverndun skapar hvata fyrir einstaklinga til að sækja sér iðnmenntun auk þess að tryggja hagsmuni neytenda og rétta meðhöndlun.
Sökum skorts á eftirliti hefur réttindalausum sem starfa í löggiltum iðngreinum fjölgað hratt en því hafa fylgt margs konar áskoranir, m.a. tjón sem neytendur hafa orðið fyrir, svört atvinnustarfsemi og grunur um mansal.
Fyrir um ári síðan hófu Samtök iðnaðarins ásamt stjórn Félags íslenskra snyrtifræðinga samtal við forsvarsmenn Noona, markaðstorg fyrir þjónustu og upplifanir, um að koma á laggirnar vottun á lögvernduðum starfsheitum hjá Noona. Afraksturinn hefur nú litið dagsins ljós og stendur þjónustuveitendum í hársnyrtingu og snyrtifræði sem nota Noona til boða að sækja um vottun á lögvernduðum starfsheitum sínum. Það auðveldar neytendum að taka upplýsta ákvörðun um val á veitendum þjónustu.