Fréttasafn



2. nóv. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Lykilatriði að ferlið við opnun tilboða sé gagnsætt

„Áhyggjur okkur beinast að því að ferlið getur verið gert tortryggilegt ef einhver vafi er til staðar. Samkeppnin á þessum markaði er gríðarleg og það er algjört lykilatriði að ferlið við opnun tilboða sé gagnsætt. Því miður hefur framkvæmd sumra opnana á tilboðum verið með þeim hætti að félagsmenn okkar hafa leitað til samtakanna í kjölfar þeirra,“ segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, í Fréttablaðinu þar sem fjallað er um að dæmi séu um verulega annmarka á opnunum útboða með rafrænum aðferðum á vegum opinberra aðila undanfarið. 

Bréf á stærstu opinberu verkkaupa landsins

Í fréttinni kemur fram að Samtök iðnaðarins hafi sent bréf á stærstu opinberu verkkaupa landsins þar sem lýst sé yfir áhyggjum af stöðu mála og óskað eftir staðfestingu á því hvernig verði tryggt að útboðsreglur séu virtar þegar um rafræn útboð er að ræða. Þegar tilboð eru opnuð frá verktökum sé gjarnan stuðst við svokallað tveggja umslaga kerfi. Fyrst sé lagt mat á þá lausn sem lögð er til og henni gefin einkunn en síðan séu tilboðin opnuð öll á sama tíma. Í hefðbundnu árferði geti fulltrúar verktaka verið viðstaddir opnun tilboða en þar sem það hefur verið illmögulegt að undanförnu hafi verið gripið til rafrænna lausna. 

Óboðleg framkvæmd

Þá segir í fréttinni að Jóhanna nefni dæmi um nýlegt útboð hjá Vegagerðinni þar sem verktakar fengu ekki sendar upplýsingar um verðtilboð allra þátttakenda í útboðinu fyrr en daginn eftir að það var afstaðið. Slík framkvæmd sé óboðleg að mati Jóhönnu. „Það virðist því miður vera svo að skortur á verkferlum varðandi slíka rafræna opnun tilboða sem og tæknilegar hindranir séu að vefjast fyrir þessum opinberu verkkaupum. Það hafa allir skilning á að núverandi aðstæður í þjóðfélaginu séu krefjandi en það er samt ekki í boði að slíkar hnökrar séu á stórum útboðum.“ 

Rafræn útboð eru framtíðin

Jafnframt kemur fram í fréttinni að í ljósi fjárfestingarátaks stjórnvalda í innviðum sé fjöldi útboða fram undan og því mikilvægt að bregðast hratt við, sé rétt að þeim staðið séu rafræn útboð framtíðin. „Ef rétt er staðið að öllu þá blasir við að rafræn opnun tilboða er framtíðin enda eru þau ódýrari, umhverfisvænni og spara tíma fyrir alla þátttakendur svo eitthvað sé nefnt. Það er það jákvæða sem við fáum vonandi út úr þessum einkennilegu aðstæðum.“ 

Fréttablaðið / Frettabladid.is , 31. október 2020.

Frettabladid-31-10-2020