Fréttasafn2. nóv. 2015 Menntun

MA vann Boxið 2015

Lið Menntaskólans á Akureyri vann Boxið – framkvæmdakeppni framhaldsskólanna í ár. Átta lið frá jafnmörgum framhaldsskólum kepptu til úrslita á laugardaginn í Háskólanum í Reykjavík. Lið Menntaskólans við Hamrahlíð varð í öðru sæti og lið Menntaskólans í Reykjavík í því þriðja.

Vinningslið MA skipuðu þau Jóhann Ólafur Sveinbjarnarson, Rúnar Unnsteinsson, Guðný Halldórsdóttir, Snæþór Aðalsteinsson og Stefán Ármann Hjaltason.

 Keppnin felst í því að leysa fjölbreyttar þrautir sem reyna bæði á þekkingu, hugvit og verklag. Þrautirnar eru hannaðar af fulltrúum fyrirtækja úr ólíkum greinum iðnaðarins með aðstoð fræðimanna HR. Meðal þrauta sem liðin fengu að glíma við að þessu sinni var að smíða brú úr smáspýtum, leysa forritunarþrautir í Box Island tölvuleiknum, byggja bát úr plastpinnum, tengja saman tæknibúnað fyrir beina útsendingu o.m.fl. Liðin fóru á milli stöðva og fengu hálftíma til að leysa hverja þraut. Fyrirtækin sem koma að gerð þrautanna í ár voru: Marel, Luxor, Rafal, Ísloft, Jáverk, Radiant Games, Mannvit og Kjörís.

 Metþátttaka var í Boxinu í ár en alls tóku 29 lið frá 17 skólum þátt í forkeppni sem haldin var fyrr í mánuðinum. Þetta er í fimmta sinn sem Boxið er haldið og er þetta í þriðja sinn sem keppnin er tekin upp og verður þáttur um hana sýndur á RÚV í byrjun næsta árs. Að keppninni standa Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og Samband íslenskra framhaldsskólanema með stuðningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Markmið með Boxinu er að kynna og vekja áhuga nemenda í framhaldsskólum á verk- og tækninámi og fjölbreyttum störfum í iðnaði.