Fréttasafn



3. nóv. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Malbikunarstöðin Höfði fari eftir sömu leikreglum og aðrir

„Við viljum að þetta fyrirtæki, sem vill svo til að er dótturfyrirtæki sveitarfélags, fari eftir sömu leikreglum og aðrir á markaði,“ segir Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, í Morgunblaðinu um þá staðreynd að dótturfyrirtæki Reykjavíkurborgar, Malbikunarstöðin Höfði, geymi mengaðan jarðveg á lóð Sævarhöfða 6-10 í leyfisleysi. Bjartmar segir það koma spánskt fyrir sjónir að dótturfyrirtæki Reykjavíkur hafi aðgang að losunarsvæði miðsvæðis og sé þar af leiðandi í grennd við helstu byggingarframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Hann bendir á að önnur fyrirtæki í geiranum þurfi að leita mun lengra til þess að losa sig við mengaðan jarðveg. 

Brot á lögum um meðhöndlun úrgangs

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að um sé að ræða brot á lögum um meðhöndlun úrgangs og að Morgunblaðið hafi greint frá því í síðustu viku að skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar andmælti ekki beiðni skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar um að mengað jarðvegsefni yrði geymt tímabundið á lóð á Sævarhöfða. Þá segir í fréttinni að til séu skýrar reglugerðir um það þegar verið er að losa eða endurvinna mengaðan jarðveg þurfi ásamt jákvæðri umsögn frá skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar að fara í gegnum umsóknarferli hjá annaðhvort Umhverfisstofnun eða Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. 

Hafa ekki fengið leyfi frá Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur

Í fréttinni kemur fram að í samskiptum Samtaka iðnaðarins við Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur komi í ljós að skrifstofa framkvæmda og viðhalds hefði ekki fengið leyfi frá ofangreindum stofnunum. Enn fremur komi fram í svari frá heilbrigðiseftirlitinu til SI að Reykjavíkurborg hafi fallið frá áformum um að setja upp losunaraðstöðu fyrir mengaðan jarðveg á svæðinu. Engu að síður er jarðvegurinn geymdur á svæðinu. 

Morgunblaðið / mbl.is, 3. nóvember 2023

Morgunbladid-03-11-2023