Fréttasafn15. apr. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Malbikunarstöðin Höfði með starfsemi án starfsleyfis

Malbikunarstöðin Höfði á Sævarhöfða 6-10 í Reykjavík er enn að taka á móti úrgangi til endurvinnslu þrátt fyrir að vera ekki með starfsleyfi. Þetta kemur fram í frétt í helgarútgáfu Morgunblaðsins þar sem segir að þetta hafi  Samtök iðnaðarins fengið staðfest eftir að kvartað hafi nýverið til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Fengu fulltrúar eftirlitsins staðfestingu á þessu með heimsókn til Höfða. 

Í frétt Morgunblaðsins segir að fyrirtækið sé í eigu Reykjavíkurborgar og haldi starfsemi áfram þrátt fyrir að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hafi hafnað umsókn þess um tímabundið starfsleyfi. Óheimilt sé að hefja starfsleyfisskylda starfsemi nema starfsleyfi liggi fyrir.

Önnur fyrirtæki hafa sætt ströngu eftirliti

Þá kemur fram að malbikunarstöðin hafi raunar lagt  inn umsóknina 3. nóvember síðastliðinn eða sama dag og frétt birtist í Morgunblaðinu og var þá sótt um tímabundið leyfi fyrir móttöku á úrgangi til endurvinnslu. SI hafi ítrekað sent ábendingar um háttsemina til heilbrigðiseftirlitsins og Umhverfisstofnunar og bent á að önnur fyrirtæki í einkaeigu sem starfi á þessum samkeppnismarkaði hafi sætt ströngu eftirliti sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar undanfarin ár vegna sambærilegrar starfsemi sem snúi að lögum um meðhöndlun úrgangs. 

Ekki boðlegt að fyrirtækið hagi sér með þessum hætti

„Það er bara ekki boðlegt að fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar hagi sér með þessum hætti,“ segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, í frétt Morgunblaðsins. „Við lögðum inn kvörtun þegar ljóst var að starfsleyfisskyldri starfsemi væri haldið áfram þrátt fyrir synjun um starfsleyfi. Enn og aftur er komin upp mjög vond staða út frá eignarhaldi þessa fyrirtækis enda skapar það tortryggni. Borgin sættir sig væntanlega ekki við að önnur fyrirtæki stundi atvinnurekstur með þessum hætti, þ.e. án starfsleyfa.“

Morgunblaðið / mbl.is, 13. apríl 2024. 

Morgunbladid-13-04-2024