Fréttasafn



1. nóv. 2016 Almennar fréttir

Málmgreinaráð Borgarholtsskóla sett á laggirnar

Málmgreinaráð Borgarholtsskóla var formlega sett á laggirnar í dag en ráðið er farvegur skoðanaskipta og samstarfs Samtaka iðnaðarins (f.h. MÁLMS og Félags blikksmiðjueigenda), IÐUNNAR fræðsluseturs, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, Félags iðn- og tæknigreina og Borgarholtsskóla, um þróun náms og kennslu í málmiðngreinum.

Markmið með ráðinu er að stuðla að því að málmiðngreinum standi til boða vel menntað og þjálfað fagfólk, að vera skóla og fyrirtækjum leiðbeinandi í tækniþróun, að tryggja að nýjungar skili sér í framboð menntunar í Borgarholtsskóla, að vera farvegur fyrir áherslur atvinnulífsins í kennslu málmiðngreina á framhaldsskólastigi, að meta kröfur atvinnulífsins til skólans og getu hans til að uppfylla þær og að stuðla að því að skólanum séu búin bestu skilyrði til að sinna skyldu sinni.

Undir samþykktir ráðsins skrifuðu, talið frá hægri, Vignir Eyþórsson frá VM, Jóhanna Klara Stefánsdóttir frá Málmi, Ársæll Guðmundsson, skólameistari BHS, Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri IÐUNNAR og Sævar Jónsson, formaður Félags blikksmiðjueigenda. Á myndina vantar Hilmar Harðarson, formann FIT og Guðlaug Þór Pálsson, formann Málms.