Málstofa um losun mannvirkjageirans á Íslandi
Á vegum Byggjum grænni framtíð verður opin málstofa haldin á Teams þriðjudaginn 1. júní kl. 13.00-14.00. Innan samstarfsverkefnisins Byggjum grænni framtíð starfar hópur sem hefur það hlutverk að meta losun mannvirkjageirans á Íslandi og er þetta í fyrsta sinn sem slík vinna fer fram hér á landi. Á málstofunni sem er opin öllum verður kynning á störfum hópsins, gagnaöflun og aðferðafræði við mat á losun. Í framhaldinu gefst fundargestum tækifæri til að koma með spurningar og ábendingar í sérstökum umræðutíma.
Í hópnum sitja:
– Sigríður Ósk Bjarnadóttir (hópstjóri), aðjúnkt við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild HÍ og byggingarverkfræðingur hjá VSÓ
– Björn Marteinsson, fyrrv. dósent við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild HÍ og sérfræðingur hjá RB
– Ólafur H. Wallevik, prófessor við Iðn- og tæknifræðideild HR og forstöðumaður RB
– Jukka Heinonen, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild HÍ
– Sigurður L. Thorlacius, umhverfisverkfræðingur hjá Eflu
Dagskrá
Kl. 13.00-13.20 Sigríður Ósk Bjarnadóttir, Björn Marteinsson og Jukka Heinonen kynna störf hópsins við mat á losun mannvirkjageirans á Íslandi.
13.20-14.00 Umræður.
Hlekkur á viðburðinn er hér.
Byggjum grænni framtíð er samstarfsverkefni stjórnvalda og hagaðila byggingariðnaðarins um vistvænni mannvirkjagerð en það á meðal annars rætur sínar að rekja til aðgerðar C.3 í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Viðfangsefnið felst í að afla upplýsinga um losun mannvirkjagerðar á viðmiðunarári, setja markmið um að minnka þá losun til 2030 og skilgreina aðgerðir svo það takist. Stefnt er að því að niðurstöðurnar verði bitar í Vegvísi að vistvænum mannvirkjum 2030, sem gefinn verður út fyrir lok júní 2021.