Málþing um fjárfestingar í öflugum kvikmyndaiðnaði
Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Samtök iðnaðarins standa fyrir málþingi í Gamla bíói fimmtudaginn 26. maí kl. 16.00-17.30. Kvikmyndaframleiðsla á Íslandi velti yfir 70 milljörðum króna árin 2009-2015 og ársvelta hefur meira en tvöfaldast á því tímabili. Fjöldi starfa í kvikmyndaiðnaði hefur vaxið að sama skapi og eru nú 1.300 störf í greininni. Frá árinu 2010 hafa verið framleiddar um 8 íslenskar kvikmyndir á ári og til marks um árangur kvikmyndaiðnaðarins fengu íslenskar kvikmyndir 109 alþjóðleg verðlaun á síðasta ári.
Á málþinginu verður farið yfir jákvæða þróun iðnaðarins hér á landi og fjallað um fjármála- og tryggingaþjónustu í kvikmyndagreininni með áherslu á alþjóðlegar lausnir fyrir íslenskan markað. Hilmar Sigurðsson, formaður SÍK, segir málþingið vera sérstaklega hugsað fyrir sérfræðinga í fjármálageiranum, fjárfesta, framleiðendur kvikmyndaefnis og annars áhugafólks um viðskiptahluta kvikmyndagerðar. „Kvikmyndaiðnaðurinn er orðinn hörku menningariðnaður hér á landi. En þó kvikmyndagreinin sé yfir 100 ára gömul þá vantar dýpri þekkingu á fjármálahlutanum í nútíma kvikmyndaframleiðslu og öllum þeim möguleikum sem í boði eru fyrir fjárfesta. Það lítur út fyrir að það megi bæta fjármálakerfi iðngreinarinnar í bankakerfinu á Íslandi. Markmið málþingsins er að kynna fyrir íslenskum framleiðendum, fjárfestum, sjóðum og bönkum leiðir sem alþjóðleg kvikmyndaframleiðsla notar til að lækka áhættu, tryggja útkomu mynda, tryggingar, fjárstreymisfjármögnun og fleira sem skiptir máli við að fjármagna kvikmyndaframleiðslu.“
Tveir erlendir sérfræðingar flytja erindi á málþinginu:
Per Naumann er forstjóri og stýrir skrifstofum European Film Bonds í Kaupmannahöfn, London, Stokkhólmi, Madríd og Melbourne sem hafa séð um verklokatryggingar við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis í yfir 40 löndum. European Film Bonds einbeita sér markvisst að þróun markaða, framboði af gagnlegum tryggingum og endurtryggingum, framboði á samkeppnishæfum verklokatryggingum og tengda ráðgjafarþjónustu.
Mads Peter Ole Olsen var hjá ABN AMRO Bank og Danske Bank þar sem hann vann við verkefnafjármögnun, fjárfestingabankastarfsemi og fyrirtækjasamruna, bæði í Kaupmannahöfn og í New York. Mads vann hjá Banque Internationale a Luxembourg og síðar í 10 ár hjá Scanbox Entertainment. Mads er í dag yfir norðurlandadeild franska bankans Natixis Coficiné og stýrir kvikmyndaframleiðslulánum til kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðarins. Natixis Coficiné er stærsti lánveitandinn í Evrópska kvikmyndaiðnaðinum.