Fréttasafn



29. okt. 2018 Almennar fréttir

Málþing um hönnun og hönnunarverðlaun

Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að Hönnunarverðlaunum Íslands og málþingi tengt þeim föstudaginn 2. nóvember næstkomandi í samstarfi við Samtök iðnaðarins, Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Landsvirkjun og Íslandsstofu. Málþingið sem verður haldið í Veröld - húsi Vigdísar ber yfirskriftina „Hvert stefnum við? – málþing um hönnun í kvikum heimi“. Áhersla verður á framtíðina og lykilorð nýrrar hönnunarstefnu fyrir Ísland sem nú er í lokamótun, þar sem áhersla er lögð á hönnun til verðmætasköpunar og betra samfélags. 

Erindin verða snörp og myndræn og velta upp vægi hönnunar / arkitektúrs í þróun og nýsköpun í atvinnulífi, samfélagi og menningu. Meðal þeirra sem flytja örerindi eru Ragna Margrét Guðmundsdóttir, Garðar Eyjólfsson, Hrólfur Karl Cela, Bergur Finnbogason og Halla Helgadóttir. Efnt verður til pallborðsumræðna þar sem framtíðarsýn Paul Bennett, hönnunarstjóra IDEO, veitir innblástur í skarpar pallborðsumræður um framtíðina. Í umræðum taka þátt Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, og Guðmundur Hafsteinsson, formaður stýrihóps um nýsköpunarstefnu. Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Sjávarklasans, stýrir málþinginu og umræðum. 

Að kvöldi sama dags verða Hönnunarverðlaun Íslands 2018 veitt á Kjarvalsstöðum. Húsið opnar kl. 20.00. Ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, mun veita verðlaunin. Einnig verður fyrirtæki veitt viðurkenning fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun og er það Sigurður Hannesson, formaður Samtaka iðnaðarins sem mun veita viðurkenninguna. Kynnir verður Guðrún Sóley Gestsdóttir.

Á vef Hönnunarmiðstöðvar má lesa nánar um viðburðina. Viðburðurinn á Facebook

Á myndinni hér fyrir ofan afhendir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Grími Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins, verðlaun fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun 2017.

Malthing_honnunarverdlaun_2.nov