Fréttasafn29. mar. 2023 Almennar fréttir Mannvirki

Mannvirkjaráð SI vinnur að nýrri stefnu til 2024

Mannvirkjaráð SI efndi til vinnustofu í Húsi atvinnulífsins í gær þar sem unnið var að endurskoðun á stefnu ráðsins til næstu tveggja ára en fyrri stefna ráðsins er frá árinu 2018. Mannvirkjaráð SI samanstendur af fulltrúum allra fagfélaga á mannvirkjasviði SI auk framkvæmdastjóra SI og stjórnarmanna sem starfa í mannvirkja- og byggingariðnaði.

Áherslumál stefnumótunar ráðsins árið 2018 sneru að framtíðarsýn þess til ársins 2022 þar sem á þeim tíma ættu gæði mannvirkja að hafa aukist, metfjöldi nemenda skyldi hefja nám tengdri mannvirkjagerð, fjárfesting í innviðum hefði margfaldast, aukin rafræn umsýsla allra hagaðila sem og allar framkvæmdir pappírslausar, engar tafir væru vegna leyfismála, aukin skilvirkni yrði í mannvirkjagerð og að jafnari kynjahlutföll væru í greininni.

Björg Ásta Þórðardóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, opnaði vinnustofuna þar sem farið var yfir þau málefni sem unnið hefur verið að síðustu árin og stöðu þeirra auk þess að varpa ljósi á þau verkefni sem framundan eru á vegum sviðsins. Bergþóra Halldórsdóttir, ráðgjafi hjá SI, stýrði vinnustofunni.