Fréttasafn



16. sep. 2022 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Marea hlýtur Bláskelina 2022

Sprotafyrirtækið Marea ehf. hlýtur Bláskelina 2022, viðurkenningu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins fyrir framúrskarandi plastlausa lausn og gott fordæmi. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, afhenti Julie Encausse, stofnanda og framkvæmdarstjóra Marea, viðurkenninguna á málþingi Plastlauss septembers í Veröld-húsi Vigdísar. Á myndinni eru ráðherra, Julie Encausse, stofnandi og framkvæmdastjóri Marea, og Eliza Reid.

Marea er tilnefnt til Bláskeljarinnar fyrir þróun á náttúrulegri filmu úr þörungahrati sem ætluð er fyrir grænmeti og ávexti. Efninu er spreyjað á matvæli og myndast þá filma sem stjórnar raka á yfirborðinu og ver matvælin svo geymsluþolið eykst. Notkun filmunnar dregur því úr matarsóun án þess að plast komi við sögu. Filmuna má svo hreinlega borða með eða skola af matvælunum og því enginn óþarfa úrgangur sem verður til.

Fimm manna dómnefnd skipuð fulltrúum frá Umhverfisstofnun, Samtökum iðnaðarins, Sorpu, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti og Ungum umhverfissinnum valdi verðlaunahafann.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að Marea hafi uppfyllt öll skilyrði sem dómnefndin lagði til grundvallar mati sínu. Fyrirtækið hefur:

  • Haft nýsköpun að leiðarljósi
  • Stuðlað að hringrásarhagkerfinu með því að nýta aukaafurð frá öðru fyrirtæki sem hráefni
  • Þróað lausnir sem koma í stað hefðbundinna plastumbúða og nýtast fyrir grænmeti og ávexti
  • Stuðlað að minni plastnotkun án þess að það auki matarsóun

Tveir aðrir aðilar komust í úrslit Bláskeljarinnar í ár, en það voru Krónan og SPJARA. Krónan leggur áherslu á að draga úr umbúðum og að stuðla að hringrás plasts í sínum rekstri. SPJARA er fataleiga sem hannað hefur margnota umbúðir úr afskurði frá Seglagerðinni og afgangstextíl frá Rauða krossinum.

Bláskelin er nú veitt í fjórða sinn. Veiting verðlaunanna er í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í plastmálefnum; Úr viðjum plastsins og er þeim ætlað að vekja athygli á nýsköpun í plastmálefnum og plastlausum lausnum.

Verðlaunin voru fyrst veitt árið 2019, þegar brugghúsið Segull 67 hlaut þau fyrir bjórkippuhringi úr lífrænum efnum. Árið 2020 hlaut Matarbúðin Nándin Bláskelina fyrir að stuðla að sjálfbæru matvælakerfi með hringrás fyrir glerumbúðir og í fyrra var það Pure North Recycling sem fæst við innlenda endurvinnslu plasts sem knúin er af jarðvarma.

Vidburdur-2022_2Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, sem sat fyrir hönd SI í dómnefnd kynnti niðurstöður dómnefndar.