Marel fyrirmyndarfyrirtæki í þjálfun iðnnema
Fulltrúi SI, Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, verkefnastjóri í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, heimsótti Marel fyrir skömmu en fyrirtækið hefur verið valið eitt af fyrirmyndarfyrirtækjum Nemastofu atvinnulífsins árið 2024. Viðurkenningin er veitt þeim fyrirtækjum og iðnmeisturum sem skara fram úr í þjálfun og kennslu iðnnema á vinnustað og stuðla að eflingu starfsmenntunar á Íslandi. Það voru Helgi Guðjónsson, framkvæmdastjóri framleiðslu, og Heiðrún Hreiðarsdóttir, mannauðsstjóra deildarinnar, sem tóku á móti Huldu. Á fundi þeirra var meðal annars rætt um áskoranir tengdar skorti á iðnnemum og mikilvægi vinnustaðanáms. Samtök iðnaðarins leggja áherslu á að efla iðnnám og tryggja að fleiri nemendur hafi aðgang að verklegri þjálfun í samstarfi við atvinnulífið. Með framlagi fyrirtækja eins og Marel er lagður grunnur að öflugri framtíð íslensks iðnaðar og samkeppnishæfni landsins.
Framúrskarandi þjálfun og aðstaða
Þjálfunarsvæði Marel er sérstaklega hannað til að veita iðnnemum framúrskarandi aðstöðu og kennslu. Í heimsókn sinni fékk Hulda Birna innsýn í aðbúnað og kennslu iðnmeistara sem unnin er af mikilli fagmennsku. Rætt var um skort á iðnnemum og nauðsyn þess að efla vinnustaðanám, meðal annars með auknu fjármagni og bættri samvinnu fyrirtækja og skóla. Þau Helgi og Heiðrún lögðu áherslu á að framtíðin í iðnnámi væri björt að því gefnu að unnið verði áfram markvisst að því að laða fleiri nemendur að iðnnámi og skapa spennandi tækifæri fyrir ungt fólk með iðnmenntun.
Heiðrún Hreiðarsdóttir, Helgi Guðjónsson og Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir.