Fréttasafn



2. sep. 2016 Iðnaður og hugverk

Margfalt minni notkun plöntuverndarvara á Íslandi

Á Íslandi er margfalt minni notkun plöntuverndarvara en í nágrannalöndum okkar og ekki hafa fundist tilfelli um varnarefni yfir mörkum í matvælum og fóðri hér á landi undanfarin ár. Þetta kemur meðal annars fram í skýrslu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um aðgerðaáætlun fyrir notkun varnarefna til ársins 2031. Áætluninni er ætlað að ýta undir þróun nýrra varna í plöntuvernd og innleiða aðferðir sem ekki byggja á notkun efna í því skyni að draga úr notkun þeirra við matvælaframleiðslu. Markmiðið er að draga markvisst úr notkuninni til að draga úr áhættu fyrir heilsu og umhverfið.

Í skýrslunni kemur fram að á Íslandi eru aðstæður með þeim hætti að notkun á plöntuverndarvörum er  talsvert minni en í nágrannalöndum okkar. Stafar þetta einkum af einangrun landsins sem geri það að verkum að hingað hafa ekki borist nærri allir skaðvaldar sem valda búsifjum í öðrum löndum en jafnframt eru framleiðsluhættir í landbúnaði með þeim hætti að ekki er eins mikil þörf á notkun plöntuverndarvara. Stærstur hluti ræktarlands er tún þar sem ræktað er gras til fóðurs og notkun plöntuverndarvara í þannig ræktun er mun minni en til dæmis í korn- eða matjurtaræktun. Þessi munur kemur glöggt fram ef notkun á plöntuverndarvörum hér á landi er borin saman við það sem gerist í nágrannalöndum, til dæmis í Danmörku er notkunin um 38 sinnum meiri en á Íslandi og 5 sinnum meiri í Finnlandi.

Þá má lesa í skýrslunni að ekki hafi fundist tilfelli um varnarefni yfir mörkum á undanförnum árum í matvælum og fóðri en Matvælastofnun hefur eftirlit með varnarefnaleifum með því að skipuleggja reglulegar sýnatökur allt árið af innlendri ræktun auk innfluttra ávaxta, grænmetis og fóðurs. Hvað varðar innlenda ræktun er eftirlitið tvískipt þar sem Matvælastofnun fer með eftirlit hjá frumframleiðendum en heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hjá þeim sem eru með pökkun á matjurtum. Nú er skimað fyrir leifum tæplega 200 efna á rannsóknastofu Matís og segir í skýrslunni að þeim fjölgi á næstunni. Kostnaður við greiningu á varnarefnaleifum er hár og skiptir því máli að velja sýnatökustað eftir áhættu. Það kemur fram að hér á landi má t.d. ætla að mest sé notað af plöntuverndarvörum í ræktun á kartöflum, gulrófum, jarðarberjum og gulrótum. Reglulega eru tekin sýni til efnagreiningar á varnaefnaleifum í fóðri, bæði úr innfluttu og innlendu fóðri.

Skýrslan „Aðgerðaáætlun um notkun varnarefna 2016-2031“ er á vef umhverfisráðuneytisins: https://www.umhverfisraduneyti.is/utgefid-efni/nr/2991