Fréttasafn30. des. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Nýsköpun Starfsumhverfi

Margir stórir sigrar í átt að bættu starfsumhverfi

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, segir í Sóknarfæri að margir stórir sigrar í átt að bættu starfsumhverfi í bygginga- og mannvirkjagerð hafi unnist á árinu. „Innan Samtaka iðnaðarins eru fjölmörg og fjölbreytt fyrirtæki í iðnaði. Á mannvirkjasviði samtakanna vinnum við fyrir alla virðiskeðjuna í bygginga- og mannvirkjagerð og á þeim vettvangi voru unnir margir stórir sigrar á árinu í átt að bættu starfsumhverfi. Það sem stendur helst upp úr er nýstofnað innviðaráðuneyti sem við bindum miklar vonir við þar sem nú er loksins búið að sameina húsnæðis-, samgöngu- og ekki síst skipulagsmál undir eitt ráðuneyti.“ 

Miklar vonir bundnar við nýja mannvirkjaskrá

Þá segir Jóhanna Klara að málefni greinarinnar hafa hingað til verið á ábyrgð of margra ráðuneyta sem hafi komið í veg fyrir nauðsynlegar breytingar í umhverfi byggingamála hér á landi. „Á næstunni þarf að ráðast í mörg verkefni, ekki síst í skipulagsmálum. Á árinu voru líka gerðar jákvæðar breytingar á regluverki greinarinnar auk þess sem að við bindum miklar vonir við nýja mannvirkjaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem tekur vonandi við af talningu SI á íbúðum í byggingu.“

Sóknarfærin liggja í nýsköpun

Jóhanna Klara segir að þegar horft sé til framtíðar verði bygginga- og mannvirkjaiðnaðurinn að takast á við miklar áskoranir í tengslum við loftlagsvandann. „Sóknarfærin liggja því í nýsköpun, rannsóknum og þróun, líkt og í mörgum öðrum atvinnugreinum. Í því samhengi er gaman að nefna að á árinu var stofnaður mannvirkjarannsóknarsjóður sem ber nafnið Askur. Sjóðurinn er nauðsynlegt fyrsta skref en mikilvægt er að meira fjármagni verði varið í rannsóknir og þróun í bygginga- og mannvirkjaiðnaði hér á landi. Á nýju ári færi vel á því að mótuð yrði stefna um þessi mál til að búa okkur betur undir vistvænni framtíðaruppbyggingu.“

Sóknarfæri, desember 2021.

Soknarfaeri-desember-2021