Fréttasafn11. jún. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Margþætt og gagnkvæm tengsl milli sjávarútvegs og iðnaðar

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, flutti erindi um umfang hugverkaiðnaðar og tengs við sjávarútveg á sameiginlegum fundi SFS og SI sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica í morgun. Í máli Sigríðar kom meðal annars fram að hugverkaiðnaður væri orðin fjórða stoðin til viðbótar við orkusækinn iðnað, sjávarútveg og hugverkaiðnað. Hún sagði hugverkaiðnað hafa skapað 16% af gjaldeyristekjum ársins 2020 og að tekjurnar hefðu tvöfaldast frá árinu 2013. 

Sigríður sagði að ásamt sjávarútvegi hafi íslenskur iðnaður sýnt styrk sinn í efnahagsþrengingunum í kjölfar heimsfaraldurs líkt og oft áður. Hún sagði að tækifæri væru til mikils vaxtar hugverkaiðnaðar ef rétt verði á málum haldið.  

Þá kom fram í máli Sigríðar að samband sjávarútvegs og iðnaðar hafi eflt báðar stoðirnar þar sem margþætt og gagnkvæm tengsl væru þar á milli. Hún nefndi að fjöldi einkaleyfa tengd sjávarútvegi væru hjá mörgum aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins, sem dæmi væru það Marel, StarOddi, Kerecis, Hampiðjan, Ankeri, Genís og Valka.

Í niðurlagi erindis síns sagði Sigríður að fjárfesting í nýsköpun í sjávarútvegi og iðnaði væri forsenda áframhaldandi verðmætasköpunar. Einnig nefndi hún mikilvægi stuðnings stjórnvalda við nýsköpun meðal annars með skattahvötum. Hún sagði áframhaldandi efling nýsköpunar og vöxt hugverkaiðnaðar vera forsenda aukinnar framleiðni og væri þar af leiðandi stærsta efnahagsmálið. 

Hér er hægt að nálgast glærur Sigríðar.

Hér er hægt að nálgast streymi fundarins. Erindi Sigríðar hefst á mín 1:08:47.

https://vimeo.com/560361688