Fréttasafn



11. mar. 2018 Almennar fréttir

Marka þarf skýra stefnu

í frétt Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur, fréttamanns á RÚV, kemur fram að á Iðnþingi sem fram fór í Hörpu hafi framsögumenn  verið á einu máli að tækifærin lægju víða en allir þyrftu að vera á tánum til að dragast ekki aftur úr harðri og síbreytilegri alþjóðlegri samkeppni.

Vitnað er til orða Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, sem sagði í framsögu sinni á þinginu að þrátt fyrir góðærið væru innviðir landsins að grotna niður og það þyrfti stórátak til að bæta úr. Þá hafi komið fram á þinginu að sveiflur hér á landi væru meiri en í samanburðarlöndunum sem hafi áhrif á allan atvinnurekstur. Launahækkanir hafi á síðustu misserum verið langt umfram það sem gerist í nágrannalöndunum og sveiflur í gengi krónunnar hafi mikil áhrif á fyrirtækin. Jafnframt að raforkuverð skapi ekki lengur forskot á alþjóðamarkaði og ekkert megi gefa eftir í nýsköpun til að Ísland eigi möguleika á að verða hugverkadrifið hagkerfi.

Í fréttinni er einnig rætt við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sem tók undir orð framkvæmdastjóra Samtaka Iðnaðarins. „Það er alveg satt. Við þrufum að marka okkur skýra stefnu heilt yfir. Þetta spilar allt saman. Það er kallað eftir langtímasýn og ég er meira en reiðubúin að taka þátt í því. Við þurfum auðvitað að hafa okkur öll við og það að sækja ekki fram það jafngildir afturför og ég held að við þurfum öll að hugsa það.“

Á vef RÚV er hægt að lesa fréttina og hér er hægt að horfa á fréttina í heild sinni.