Fréttasafn



7. des. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Markaðssetjum Ísland sem nýsköpunarland

„Það skiptir miklu máli að fyrirtæki sem festa rætur hér og hafa alla burði til að stækka, vaxa og dafna, hafi aðgang að þeirri þekkingu sem þau þurfa á að halda og þá þurfum við oft á tíðum að sækja út fyrir landssteinana,“ segir Sigríðir Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, meðal annars í viðtali í síðdegisútvarpi Rásar 2 um nýtt myndband Work in Iceland sem Íslandsstofa og Samtök iðnaðarins hafa sameinast um og sýnir átta erlenda sérfræðinga sem búsettir eru hér á landi segja frá því sem þeir telja vera helstu kosti þess að starfa á Íslandi. Sigríður segir erlendu sérfræðingana sem koma fram í myndbandinu starfa hjá Algalíf, Alvotech, Marel og CCP. 

Sigríður segir Work in Iceland verkefnið vera margþætt, það snúi annars vegar að upplýsingagjöf og að kynna Ísland sem valkost, ákjósanlegan stað fyrir búsetu og atvinnu, og hins vegar að því að liðka fyrir ferlum þannig að það verði auðveldara fyrir fólk að koma hingað, setjast að og taka þátt í uppbyggingu íslensks atvinnulífs. „Við hjá SI teljum að nýsköpun sé eina leiðin fram á við núna, til að búa til ný verðmæti og ný störf og auknar gjaldeyristekjur. Ein lykilforsenda þess að þessi sýn um að hugverkaiðnaður haldi áfram að vaxa og dafna verði að veruleika er aukið framboð af sérfræðiþekkingu.“

Þá kemur fram í viðtalinu við Sigríði að hugverkaiðnaður standi nú fyrir 15% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins og hún segir að hugverkaiðnaður hafi alla burði til að verða enn stærri og mikilvægari stoð í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. „Verkefnið er tilkomið vegna þess að félagsmenn okkar hafa bent okkur á að það megi margt bæta í þessu ferli. Við höfum lagt áherslu á það á undanförnum árum að markaðssetja Ísland sem áfangastað fyrir ferðamenn. Ég segi að við skulum fara að markaðssetja landið í breiðara samhengi, sem nýsköpunarland. Fáum hingað erlenda sérfræðinga og frumkvöðla sem vilja taka þátt í verðmætasköpuninni.“

Á vef RÚV er hægt að hlusta á viðtalið við Sigríði, 4. desember 2020.

Umræða í Harmageddon

Sigríður var einnig í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon um Work in Iceland þar sem hún segir meðal annars að markmiðið sé að laða til Íslands erlenda sérfræðinga. 

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Sigríði í Harmageddon, 3. desember 2020.

Hér er hægt að horfa á myndbandið Work in Iceland: 

https://vimeo.com/483764495