Fréttasafn



19. jan. 2018 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Markmiðið að skapa grundvöll fyrir aukna velmegun

 „Þetta lýsir vandamáli en er í leiðinni gullið tækifæri til að auka efnahagslega velmegun hér á landi,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, í frétt Helga Vífils Júlíussonar, blaðamanns, í Morgunblaðinu í dag um þann vanda að framleiðni vinnuafls á Íslandi er almennt lág í alþjóðlegum samanburði en að meðaltali er framleiðnin 22% lakari en annars staðar á Norðurlöndum. 

Ingólfur segir að hið eiginlega markmið með því að auka framleiðni sé að skapa grundvöll fyrir aukna velmegun í landinu. Hann segir að rekja megi hluta þess að framleiðni vinnuafls sé minni hérlendis til þess að markaðurinn sé smár og byggðin dreifð sem leiði til óhagkvæmni í rekstri. „En það er margt sem við getum bætt til að auka framleiðni vinnuafls: Stöðugra starfsumhverfi fyrir fyrirtæki leiðir til aukinna fjárfestinga í hagkvæmni, bæta má menntakerfið svo það styðji betur við þarfir atvinnulífsins, efla þarf nýsköpun til að tryggja framleiðnivöxt og að gæta þess að innviðir séu traustir, hagkvæmir og skilvirkir. Rannsóknir sýna að þessir þættir leiða til bættrar framleiðni og þannig ekki að ástæðulausu að Samtök iðnaðarins leggja sérstaka áherslu á þá.“

Þá nefnir Ingólfur að almennur og víðtækur stöðugleiki sé einn af lykilþáttum þess að stuðla að aukinni framleiðni og bendir einnig á að hvatar til rannsókna og þróunar séu í mörgum löndum meiri en hér og gæta þurfi að samkeppnisstöðu landsins hvað það varðar.  „Slíkt hefur beina skírskotun í framleiðnivöxt og aukin lífsgæði. Samtök iðnaðarins hafa talað fyrir því að þak á endurgreiðslur vegna þróunarstarfs verði afnumið.“ 

Morgunblaðið, 19. janúar 2018.