Fréttasafn



13. sep. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Markmiðið að skapa skilyrði fyrir lægri vöxtum

Við fögnum  því að ríkið ætlar að leggja sín lóð á vogarskálarnar til þess að draga úr verðbólguþrýstingi. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í viðtali á Morgunvakt Rásar 1 í morgun þar sem hann var ásamt Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanni BSRB, en þau ræddu við þáttastjórnendurna Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunni Elísabetu Bogadóttur um fjárlagafrumvarpið sem kynnt var í gær. „Við sjáum það birtast meðal annars í krónutölugjöldum sem hækka um 3,5% en halda ekki í við verðlag sem er sterkt signal. Markmiðið er auðvitað að skapa skilyrði fyrir lægri vöxtum. Verðbólga hefur mikil áhrif á almenning í landinu, vextir bíta sannarlega og almenningur finnur það á eigin skinni og einnig fyrirtækin.  Fjárfesting er þá heldur að draga saman sem er slæmt því hún leggur grunn að hagvexti framtíðarinnar.“

Alvarleg staða á húsnæðismarkaði 

Sigurður segir jafnframt í viðtalinu að staðan á húsnæðismarkaði sé alvarleg og stafi af því að það hafi einfaldlega ekki verið byggt í takti við þarfir þannig að vandinn hafi safnast upp með tímanum. „Þetta hefur gerst yfir langt tímabil. Við höfum séð núna nokkur ár þar sem uppbyggingin hefur verið kröftug en núna er að draga úr henni heldur en hitt. Við sjáum ástæður þess, fjármagnskostnaður, hátt vaxtastig, laun eru hærri, kostnaður við aðföng er meiri og svo framvegis, skattbreytingar ríkisstjórnarinnar hafa áhrif og síðan áherslur sveitarfélaganna. Þannig að allt vinnur þetta saman að því að það er að draga úr uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.“

Ef ekki verður gefið í blasir við að verðbólgan verður þrálát næstu árin

Sigurður segir að bregðast verði við stöðunni á húsnæðismarkaði. „Við megum ekki gleyma því að þetta er uppspretta verðbólgu, kannski ekki akkúrat í augnablikinu, en hefur verið síðustu árin. Þá hafa stjórnvöld farið í aðgerðir á eftirspurnarhliðinni til að dempa eftirspurnina. Seðlabankinn er með vaxtahækkanir, það er eitt, síðan er þetta greiðslumat og veðhlutföll og fleira. Meðan framboðshliðin er ekki styrkt og meðan framboðið er ekki aukið. Á sama tíma og eftirspurninni er haldið niðri þá blasir við að það verður ójafnvægi þegar staðan breytist. Þegar vextir lækka eða á að rýmka varðandi greiðslumat og annað. Þannig að ef það verður ekki gefið í þarna þá blasir við að verðbólgan verður þrálát næstu árin.“ 

Vandamál sem þarf að leysa er framboð af byggingarhæfum lóðum

Sigurður segir einnig að verkefni taki langan tíma. „Verkefni sem byrja á í dag klárast eftir 2-3 ár. Ef við ættum að nefna eitt vandamál þarna sem þyrfti að leysa þá er það framboð af byggingarhæfum lóðum. En svo er auðvitað heimurinn flóknari en svo, en þetta er grunnatriðið þarna.“

Á vef RÚV er hægt að hlusta á viðtalið frá mínútu 23:45. 

RÚV, 13. september 2023.