Fréttasafn13. mar. 2018 Almennar fréttir Menntun

Markviss kynning og áhersla á færni gæti dregið úr brotthvarfi

Að mati Samtaka iðnaðarins er tvennt sem gæti skipt sköpum þegar kemur að baráttunni við brotthvarf nema úr framhaldsskólum. Í fyrsta lagi þarf markvissa vinnu og kynningarstarf með grunnskólanemendum áður en þeir velja sér nám að loknum grunnskóla. Með aukinni kynningu og opinni umræðu um þau ólíku tækifæri sem bjóðast t.a.m. með iðn- og starfsmenntun má ætla að fleiri nemendur velji sér námsleið og skóla sem eru líklegri til að styðja við og virkja áhuga þeirra og hæfileika og draga þar með úr líkum á brotthvarfi. Í öðru lagi er mikilvægt að auka umræðu og áherslu á færni einstaklings og styrkleika fremur en undirbúning nemenda fyrir tiltekin störf. Rannsóknir og spár sýna að á næstu árum verður megináhersla á færni og þverfaglega þekkingu þar sem mestu máli skiptir aðlögunarhæfni, sköpun og rökræn, gagnrýnin og lausnamiðuð hugsun. Þetta kemur meðal annars fram í grein Ingibjargar Aspar Stefánsdóttur, sviðsstjóra rekstrar mennta- og mannauðsmál SI, í Morgunblaðinu í dag. 

Í greininni kemur jafnframt fram að ætla megi að brotthvarf í íslensku skólakerfi sé tæp 20% í samanburði við rúm 10% í löndum Evrópusambandsins. Þar segir að Finnar séu þeir nágrannar okkar sem hafa náð hvað bestum árangri í að draga úr brotthvarfi, en í Finnlandi er brotthvarfsprósentan 7-8%. Í umfjöllun um góðan árangur Finna á grunnskólastigi sé áhugavert að skoða þá áherslu sem þeir leggja á að mæta hratt og örugglega öllum einstaklingum sem skilgreindir eru með einhverskonar námserfiðleika eða þörf fyrir aukna aðstoð. Hjá Finnum er þessi hópur talinn vera allt að 30% af nemendafjölda. 

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.