Fréttasafn18. maí 2016 Iðnaður og hugverk

Matur er mikils virði – nýir straumar og markaðssetning matvæla

Matur er mikils virði er yfirskrift ráðstefnu sem haldin verður í Silfurbergi í Hörpu á morgun, fimmtudaginn 19. maí. Samstarfsvettvangur um Matvælalandið Ísland efnir til ráðstefnunnar og verður sjónum beint að framtíðinni og leiðum til að auka verðmæti þeirra matarauðlinda sem Íslendingar búa yfir.

Aðalfyrirlesari á ráðstefnunni er Birthe Linddal, danskur sérfræðingur í framtíðarfræðum, en hún heldur erindi um nýjustu strauma og stefnur í matargeiranum. Fjöldi annarra erinda verða flutt um nýjar leiðir til að auka virði afurða, stefnu íslenskra fyrirtækja og sagðar verða reynslusögur af nýstárlegum aðferðum til að ná til neytenda. Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ávarpar gesti en ráðstefnustjóri verður Hörður Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri hjá Matís.

Ráðstefnan hefst með hádegishressingu kl. 12.00 í umsjá matreiðslumeistaranna Bjarna Gunnars Kristinssonar, yfirkokks í Hörpu, og Gísla Matthíasar Auðunssonar, eiganda Slippsins í Vestmannaeyjum og Matar og drykkjar í Reykjavík.  

Matvælalandið Ísland er samstarfsvettvangur Bændasamtaka Íslands, Háskóla Íslands, Íslandsstofu, Matís, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Þetta er í fjórða sinn sem þessir aðilar standa að ráðstefnu undir merkjum Matvælalandið Ísland en sú fyrsta var í nóvember 2012.
Dagskrá og skráning