Fréttasafn



5. feb. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Matvælastefna á borði ríkisstjórnar

„Ríkisstjórnin þarf að stíga þarna inn af alvöru og þunga og skapa rými fyrir fyrirtækin til að gera þetta. Það þarf að skapa ákveðinn grunn,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, í frétt Morgunblaðsins í dag þar sem fjallað er um að fern samtök í atvinnulífinu hafi sameinast um áherslur í matvælastefnu fyrir Ísland sem kynntar voru forsætisráðherra og þremur öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar í gær. Samtökin sem unnið hafa saman að þessu verkefni eru Samtök iðnaðarins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök ferðaþjónustunnar og Bændasamtök Íslands. Guðrún segir að samtökin eigi sameiginlega snertifleti; sjálfbærni, öryggi og heilnæmi og verðmætasköpun og að þeir þurfi að rýma hver við annan.

Á dagskrá ríkisstjórnar

Þá kemur fram í Morgunblaðinu að forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hyggist setja matvælastefnu á dagskrá ríkisstjórnarfundar næstkomandi föstudag í samræmi við sjónarmið samtakanna um mótun matvælastefnu fyrir Ísland. Þar segir að hún vonist til að í lok árs verði komin sýn á málið sem teygir sig yfir alla geira samfélagsins, ræða þurfi um málefni matvælaframleiðslu þvert á ráðuneyti og geira enda snerti þau svo mörg svið samfélagsins. 

Vilja nýta tækifæri í matvælaframleiðslu þjóðinni til heilla

Í fréttinni segir að samtökin veki athygli á því að mikil tækifæri blasa við íslenskri matvælaframleiðslu á næstu árum og áratugum og að stefnumótun stjórnvalda þurfi að endurspegla þessi tækifæri og gera fyrirtækjum í matvælaframleiðslu kleift að nýta þau þjóðinni til heilla. Í sameiginlegri stefnu samtakanna segir meðal annars að íslenskir matvælaframleiðendur stefni að því að verða framúrskarandi á heimsvísu með sérstakri áherslu á sjálfbærni, umhverfisvernd, hreinleika, rekjanleika og öryggi.  

Morgunblaðið / mbl.is, 5. febrúar 2019.

Matvaelastefna