Fréttasafn11. apr. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Mauk úr vannýttu grænmeti sigrar í Ecotrophelia keppninni

Mauk sem er marinering framleidd úr vannýttu grænmeti sigraði í keppninni Ecotrophelia Ísland 2017 þar sem keppt var í nýsköpun í matvælaframleiðslu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, afhenti verðlaunin á ráðstefnunni Þekking og færni í matvælageiranum sem fram fór á Hótel Sögu í síðustu viku.

Meginmarkmið keppninnar er að stuðla að sköpun og þróun nýrra, umhverfisvænna matvara fyrir íslenskan og alþjóðlegan markað. Einnig er markmiðið að auka umhverfisvitund almennings og þjálfa frumkvöðlahugsun nemenda. Sigurliðið hlaut vegleg verðlaun og rétt til að taka þátt í alþjóðlegri keppni, Ecotrophelia Europe í London í nóvember.

Mauk er þykkni sem neytandinn þynnir með vökva að eigin vali. Það er hugsað sem marinering fyrir kjúkling og hvítan fisk eða sem grunnur í súpur, sósur eða pottrétti. Markmiðið með framleiðslu vörunnar er að taka á matarsóun, einu stærsta vandamáli í matvælaiðnaði. Mikið magn úr grænmetisræktun fer til spillis í dag, meðal annars hráefni sem stenst ekki útlitskröfur smásala og neytenda. Aðaluppistaða Mauks eru tómatar og gulrætur og er án aukaefna.