Fréttasafn



23. sep. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Með nýsköpunaraðgerðum er fjárfest í framtíðartekjum

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, í tengslum við umfjöllun Markaðarins í Fréttablaðinu undir yfirskriftinni „ Flokkarnir setja nýsköpun á oddinn“ en þar eru allir flokkar beðnir um að lýsa nýsköpunarstefnu sinni.

Hvatar vegna rannsókna og þróunar verði ótímabundnir

Sigurður segir í blaðinu að þegar komi að áherslum stjórnvalda í málefnum nýsköpunar sé þrennt sem skipti mestu máli. „Í fyrsta lagi þurfa þær aðgerðir sem ráðist var í vegna Covid-19 heimsfaraldursins, svo sem þegar hvatar vegna rannsókna og þróunar voru hækkaðir, bæði hlutfall og þak, að vera gerðar ótímabundnar.“ Hann bætir við að um sé að ræða fjárfestingu í framtíðartekjum en ekki eyðslu. 

Ráðherra iðnaðar, nýsköpunar og erlendra fjárfestinga

Þá kemur fram að hann nefni auk þess að mikilvægt sé að sérstakur ráðherra iðnaðar, nýsköpunar og erlendra fjárfestinga þurfi að sjá um málaflokkinn. „Þessi mál hafa ekki haft þann sess sem þau þurfa að fá til að það sé hægt að sækja öll þau tækifæri sem við stöndum frammi fyrir.“ 

Liðka þarf fyrir ráðningu erlendra sérfræðinga

Þriðja atriðið sem Sigurður segir að skipti miklu máli snúi að mannauði. „Skortur á sérfræðiþekkingu hér á landi á ýmsum sviðum hefur reynst hindrun í vexti fyrirtækja í hugverkaiðnaði. Tvennt þarf að koma til samtímis til að greiða úr þessum vanda. Annars vegar að breyta áherslum í menntakerfinu þannig að fleiri útskrifist úr tækni- og raungreinum, en einnig þarf að liðka verulega fyrir ráðningu sérfræðinga hingað til lands.“ 

Markaðurinn / Frettabladid.is, 23. september 2021.

Frettabladid-23-09-2021