Fréttasafn28. jan. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Með samvinnuleið er hægt að flýta innviðauppbyggingu

Með því að nýta samvinnuleið hins opinbera og einkaaðila við uppbyggingu innviða er hægt að flýta fyrir þjóðhagslega arðbærri fjárfestingu. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í grein sinni í ViðskiptaMogganum. Hann segir þar að bæði innviðaráðherra og formaður SI hafi lagt áherslu á mikilvægi þessa í ávörpum sínum á Útboðsþingi SI sem fram fór í síðustu viku. 

Ingólfur segir að fjárfesting í innviðum sé lykillinn að langtímahagvexti og framleiðnivexti. Traustir innviðir séu undirstöður framleiðslugetu hagkerfisins og auka möguleika fyrirtækja til að skapa verðmæti. Styðja megi beint við framleiðslugetu hagkerfisins með fjárfestingu í innviðum.

Fjárfesting í innviðum sem auka framleiðni skilar sér í lægri vöxtum og minna atvinnuleysi

Þá segir Ingólfur í greininni að sú mikla áhersla á innviði sem birtist í stjórnarsáttmála og ráðuneytisskipan nýrrar ríkisstjórnar sé ánægjuleg. Nýtt innviðaráðuneyti muni án efa stuðla að auknum málshraða, færri flöskuhálsum og samræmdri stefnu í þessum mikilvæga málaflokki. Fjárfesting í innviðum, s.s. í höfnum, flugvöllum, vegum og brúm, auki samkeppnishæfni og afkastagetu þjóðarbúsins sem skili sér m.a. í auknum gjaldeyristekjum. Hann segir að fjárfesting á þessu sviði auki framleiðni, spari kostnað, slái á atvinnuleysi og dragi úr sóuðum tíma í töfum fyrir heimili og fyrirtæki. Aukin framleiðni skili sér síðan í lægri vöxtum og enn minna atvinnuleysi. Ingólfur segir jafnframt að til þess að efnislegir innviðir landsins styðji við öfluga verðmætasköpun fyrirtækja þurfi stjórnvöld að hafa í huga að fjárfesting í innviðum þurfi ávallt að mæta þörfum atvinnulífs og heimila. Áhersla þurfi að vera á fjárfestingu í innviðum sem skapi mestan þjóðhagslegan ávinning. Viðhaldi á innviðum þurfi á hverjum tíma að vera nægjanlega vel sinnt þannig að ástand þeirra sé gott.

Áhyggjuefni að dregur úr fjárfestingu 

Í greininni kemur fram að ríkið hafi á síðustu árum sett aukna fjármuni í innviðauppbyggingu til að mæta uppsafnaðri þörf og sporna gegn samdrætti í hagkerfinu. Ingólfur segir að átak stjórnvalda á þessu sviði felist í því að setja aukinn kraft í viðhald og nýfjárfestingar eða flýta áður fyrirhuguðum framkvæmdum. „Jókst fjárfesting ríkisins bæði í fjárhæðum og sem hlutfall af landsframleiðslu. Það er hins vegar áhyggjuefni að dregið hafi úr fjárfestingu sveitarfélaga þvert á yfirlýsingar margra þeirra um að auka við fjárfestingar á síðustu misserum.“ Hann segir að þó að fjárfesting hins opinbera hafi aukist á síðustu árum eftir að hafa verið mjög lítil í kjölfar efnahagsáfallsins 2008 þá sé fjárfestingarstig hins opinbera enn lágt í sögulegu ljósi. Aukning í opinberri fjárfestingu á síðustu árum nái ekki að vinna upp þá miklu fjárfestingar- og viðhaldsþörf sem þá myndaðist. Mikilvægt sé að ekki sé dregið úr fjárfestingu og viðhaldi í innviðakerfinu á næstunni. Þvert á móti sé ástæða til að bæta í fjárfestingu hins opinbera í innviðum og tryggja framgang efnahagslega arðbærra verkefna. „Með þeim hætti undirbyggjum við samkeppnishæfni atvinnulífsins og aukin lífsgæði landsmanna litið til framtíðar.“

Markmið að flýta fyrir innviðauppbyggingu og stuðla að þjóðhagslega arðbærri fjárfestingu

Í niðurlagi greinarinnar segir Ingólfur að í ávarpi innviðaráðherra á Útboðsþingi SI hafi komið fram að í nokkrum afmörkuðum stærri framkvæmdum væri uppbygging innviða fjármögnuð með samvinnuleið hins opinbera og einkageirans. „Það verður að teljast jákvætt enda markmiðið að flýta fyrir og stuðla að þjóðhagslega arðbærri fjárfestingu. Rétt er að hvetja stjórnvöld til dáða í þessum efnum.“

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

ViðskiptaMogginn, 26. janúar 2022.

VidskiptaMogginn-26-01-2021