Fréttasafn25. nóv. 2016 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Meira en helmingur bókatitla er prentaður erlendis

Af 607 bókatitlum í Bókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefenda í ár eru 272 prentaðir innanlands og er það 62 titlum færri en fyrir ári síðan. Bókasamband Íslands hefur kannað prentstað íslenskra bóka og dregst prentun innanlands saman um 7 prósentustig milli ára en í ár er hlutfallið 45% og var 52% á síðasta ári. Heildarfjöldi prentaðra bókatitla var 645 á síðasta ári sem er 38 titlum færri en í ár. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Grafíu, stéttarfélagi í prent- og miðlunargreinum.

Bókunum er skipt í þrjá flokka og sýnir könnunin að í þremur flokkum af fjórum er meirihluti bóka prentaðar erlendis. Flestir titlarnir eru í flokki barnabóka en stærstur hluti þeirra er prentaður erlendis eða 78%. Í tilkynningunni segir að skýringin sé meðal annars sú að samprent sé algengt í útgáfu barnabóka þar sem prentað er sameiginlega fyrir mörg lönd.

  • Fræðibækur, bækur almenns efnis og listir eru alls 157 talsins. 76 (48%) eru prentaðar á Íslandi og 81 (52%) prentaðar erlendis.
  • Skáldverk, íslensk og þýdd, eru 182 talsins. 124 (68%) eru prentuð á Íslandi og 58 (32%) prentuð erlendis.
  • Saga, ættfræði, ævisögur, handbækur, matur og drykkur eru alls 88 talsins. 32 (36%) eru prentaðar á Íslandi og 56 (64%) prentaðar erlendis.
  • Barnabækur, íslenskar og þýddar, eru alls 180 talsins. 40 (22%) prentaðar á Íslandi og 140 (78%) prentaðar erlendis.

Þegar kannað var hvar bækurnar 607 eru prentaðar skiptist fjöldinn þannig að 272 (45%) eru prentaðar á Íslandi, 250 (41%) eru prentaðar í Evrópu, 84 (14%) eru prentaðar í Asíu og ein bók er prentuð annars staðar.