Fréttasafn



28. jan. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Meiri áhætta að vera í brautryðjendastarfi

Í Morgunblaðinu um helgina er sagt frá því að af þeim fyrirtækjum sem hættu starfsemi árið 2015 hafi flest þeirra verið í tækni- og hugverkaiðnaði eða um 12% og vísað í að þetta komi fram á vef Hagstofunnar

Sigurdur-2018_1540906570689Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem segir mikla nýsköpun vera einkenni fyrirtækja í tækni- og hugverkaiðnaði. „Þessi fyrirtæki eru að verja fjármunum í rannsóknir og þróun og þar með er verið að reyna á ný tækifæri til verðmætasköpunar. Þegar vel tekst til er það grundvöllur fyrir aukna verðmætasköpun og útflutningstekjur. Nýjar greinar verða til. En á móti kemur að það er meiri áhætta að vera í brautryðjendastarfi. Það er mikil gróska í greininni og þrátt fyrir þetta er fyrirtækjum í þessari grein að fjölga. Starfsmannafjöldinn vex og verðmætasköpun greinarinnar eykst. Svona fyrirtæki eru mikils virði fyrir hagkerfið og fyrir vöxt þess.“ 

92% fyrirtækja sem hætta starfsemi með 0-1 starfsmann

Í fréttinni segir jafnframt að fyrirtæki teljast hætt starfsemi hafi þau hvorki starfsmenn né rekstrartekjur í tvö ár og að 2.895 fyrirtæki hafi hætt starfsemi árið 2015 að undanskilinni fjármála- og vátryggingastarfsemi. Þá segir að rekstrartekjur þessara fyrirtækja hafi numið 36,5 milljörðum króna og hafi þau um 3.000 starfsmenn. 92% þessara fyrirtækja voru með 0 til 1 starfsmann. Fæst fyrirtæki hafi hætt starfsemi í framleiðslu án fiskvinnslu eða um 6%, 8% hafi lagt upp laupana í sjávarútvegi og 10% fyrirtækja í byggingarstarfsemi hafi hætt. Einnig segir að á árunum 2011-2015 hafi 12 til 13% hætt starfsemi í tækni- og hugverkaiðnaði, ef undanskilið er árið 2013 þegar 10% þeirra hættu

Morgunblaðið, 26. janúar 2019.