Fréttasafn11. feb. 2020 Almennar fréttir Hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Meiri skellur í útflutningi en síðustu þrjá áratugi

Staðan er sú að við erum að sjá meiri skell í útflutningi en síðustu þrjá áratugi. Það er mikið hættumerki og áhyggjuefni vegna þess að það er heldur ekki fyrirséð hvernig útflutningur mun taka við sér ólíkt því sem átti sér stað eftir efnahagshrungið 2008. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, í Silfrinu sem sýnt var á RÚV um helgina. Hún segir jafnframt að þá hafi í rauninni krónan hagað sér sem einskonar sveiflujafnandi afl. „Það er að segja eins og í hagsögunni eins og við þekkjum hana þá gefur krónan eftir í niðursveiflu og þá eflist samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna. Við erum ekki að sjá fram á þá stöðu í dag, ólíkt því sem við þekkjum áður. Þannig að mesta áhyggjuefnið er hvaðan á hagvöxturinn að koma, hvernig mun hagkerfið taka við sér og á hvaða sviðum munum við sjá vöxt og aukna verðmætasköpun. Ég held að það sé stóra myndin. Það eru há laun, háir raunvextir og há skattheimta í alþjóðlegum samanburði sem gerir stöðu íslenskra fyrirtækja, sérstaklega þeirra sem eru í útflutningi og alþjóðlegri samkeppni, mjög þrönga. Við erum ekki að sjá í dag vísbendingar um hvað drífur hagvöxtinn næstu áratugina. Við erum að sjá fram á meira atvinnuleysi en við þekkjum.“ 

Sigríður segir að vanalega hafi þetta birst í aukinni verðbólgu en nú sé aukinn efnahagssamdráttur  að birtast í auknu atvinnuleysi. „Það eru vísbendingar um að atvinnuleysið muni þá hækka til frambúðar eins og staðan lítur út núna. En það góða og jákvæða er að við getum breytt þessu. Við getum snúið vörn í sókn með réttum aðgerðum í dag.“

Á vef RÚV er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni.

Ruv-09-02-2020