Meiri spurn eftir íbúðum með bílastæði en án stæða
Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverks og varaformaður Mannvirkis - félags verktaka, telur það ekki nokkrum vafa undirorpið að spurn eftir íbúðum þar sem bílastæði fylgir sé meiri en eftir íbúðum þar sem ekkert bílastæði fylgir, eða þau til sölu eða leigu. Þetta kemur fram í frétt mbl.is.
Í fréttinni kemur fram að Jáverk sé með íbúðir í Gróttubyggð til sölu og þar hafa 33 íbúðir af 63 selst og að Gylfi segir söluna með ágætum miðað við árferði, næg bílastæði fylgi íbúðunum. Til samanburðar hafi verið tregða á sölu á íbúðum í Reykjavík þar sem skortur á bílastæðum sé sagður fæla kaupendur frá. „Við finnum fyrir aukinni eftirspurn á þeim stöðum þar sem bílastæði fylgja, ólíkt því sem er í Reykjavík,“ segir Gylfi en svo virðist sem sala þar gangi hægar vegna kvaða sem Reykjavík setti á byggingu íbúðanna. Þar vísar hann til reglugerðar sem kveði á um að hámarki megi vera 0,7 bílastæði á hverja íbúð í nýbyggingum í Reykjavík. Gylfi segir sölu á íbúðum í Gróttuhverfi eftir væntingum og að taka verði með í reikninginn að tveir þriðju hluti íbúðanna verði ekki tilbúnar til afhendingar fyrr en í apríl. „Ég er ekki að miða þetta við það þegar við seldum heilu fjölbýlin á einum degi, en þetta er fínasta sala.“
Hér er hægt að nálgast fréttina í heild sinni.
mbl.is, 20. nóvember 2024.