Fréttasafn14. mar. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Meirihlutinn vill ekki í ESB

Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá niðurstöðum úr könnun meðal félagsmanna SI um aðild að Evrópusambandinu. Þar segir: Góður meirihluti forsvarsmanna fyrirtækja sem eru innan Samtaka iðnaðarins er á móti því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Þetta kemur fram í netkönnun sem gerð var á vettvangi SI fyrir skemmstu. Þar segjast 37% aðspurðra vera mjög andvíg aðild og 20% frekar andvíg. 8% eru mjög hlynnt aðild, 17% frekar hlynnt, 16% hvorki né og 2% vildu ekki svara. Sé litið yfir lengri tíma og til kannana um þetta sama efni, sem gerðar hafa verið frá 2008, fer andstaðan við aðild mjög vaxandi og hefur aldrei verið meiri. Sé litið á aðra þætti vildu 59% aðspurðra að framhald aðildarviðræðna við ESB yrði lagt í dóm þjóðarinnar, sem er raunar í samræmi við þær línur sem lagðar voru á Iðnþingi í fyrra. Þá segja 38% íslensku krónuna henta vel fyrir sinn rekstur en 28% illa, þó mismikið. „Meirihlutinn vill ekki í ESB og þróunin hefur lengi verið í þá átt, nema hvað menn vilja kjósa um hvort viðræðum sé haldið áfram,“segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, í samtali við Morgunblaðið.