Fréttasafn



2. maí 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Meistarafélag bólstrara verður Félag húsgagnabólstrara

Á aðalfundi sem haldinn var 27. apríl í Húsi atvinnulífsins var nafni Meistarafélags bólstrara breytt í Félag húsgagnabólstrara. Lagðar voru fram tillögur um lagabreytingar um að sameina meistara og sveina í eitt félag sem félagsmenn samþykktu einróma. Félagið heitir því nú Félag húsgagnabólstrara og skilyrði félagsaðildar eru að aðili hafi hlotið sveinsréttindi og eða meistarabréf í húsgagnabólstrun og stundar sjálfstæðan atvinnurekstur í greininni. Með breytingunum vill félagið efla og styrkja starfsemi sína með því að bjóða sveina í sjálfstæðum rekstri velkomna.

Stjórn helst óbreytt en formaður Félags húsgagnabólstrara Ásgrímur Þór Ásgrímsson var endurkjörinn. Þá var Ásgeir Norðdahl Ólafsson endurkjörinn gjaldkeri og Birgir Karlsson ritari. Hafsteinn Gunnarsson og Pálmi Sigurður Sighvatsson eru varamenn.

Á myndinni eru talið frá vinstri Ásgrímur Þ. Ásgrímsson, Ásgeir Norðdahl Ólafsson, Hafsteinn Sigurbjarnarson og Hafsteinn Gunnarsson.