Fréttasafn



5. okt. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Meistarafélag húsasmiða fordæmir viðskiptahætti

Jon-Sigurdsson-formadurMeistarafélag húsasmiða fordæmir viðskiptahætti starfsmannaleiga og undirverktaka sem birtust í fréttaskýringaþætti Kveiks í vikunni. Þetta kemur fram í frétt RÚV. Jón Sigurðsson, formaður Meistarafélags húsasmiða og formaður Meistaradeildar SI, segir félagið hafa vitað af þessu og barist gegn þessu í mörg ár með lítilli hjálp frá stjórnvöldum og eftirlitsstofnunum. Hann segir félagið fordæma þessi dæmi sem hafi verið nefnd í þættinum. „Við erum búin að koma með tillögur um til dæmis stopp á kennitöluflakki, sem hefur alltaf stoppað á Alþingi eða annars staðar. Við erum búin að berjast fyrir fyrirbrigði sem heitir heilbrigðisvottorð fyrirtækja þar sem óháður úttektaraðili tekur út fyrirtæki, greiðslustöðu og annað slíkt og þá mættu sem sagt opinberir aðilar sem eru að bjóða út ekki versla við þá sem ekki gætu lagt fram heilbrigðisvottorð.“

Sveitarfélög og opinberar stofnanir taka alltaf lægsta tilboði

Í fréttinni segir Jón að lítill sem engin áhugi hafi verið hjá stjórnmálamönnum eða eftirlitsstofnunum að ná fram þessum tillögum. Ábyrgð sveitarfélaga sé einnig mjög mikil í þessum málum. „Það er náttúrulega vitað mál að sveitarfélög og opinberar stofnanir taka alltaf lægsta tilboði. Við erum búin að gera athugasemdir við það að það er alveg sama hvernig fyrirtæki standa. Þar eru að koma fyrirtæki sem eru nýbúin að skipta um kennitölu.“

Eftirlitsstofnanir taka ekki nægjanlega á þeim málum sem upp hafa komið

Jón segir jafnframt í fréttinni að ábyrgð félagsins sé einnig mikil og félagsmenn þurfi að standa í lappirnar gagnvart viðskiptaháttum sem þessum. Félagið hafi nokkrum sinnum kært starfsemi til lögreglunnar en nýlega hafi verið ákveðið að finna önnur úrræði þar sem mannskap vantaði hjá lögreglu til að taka á svona málum. Þá hafi eftirlitsstofnanir ekki tekið nægjanlega á þeim málum sem upp hafi komið. „Staðreyndin er sú að þessar stofnanir segja allar að það vanti lagaheimildir og ef það vantar lagaheimildir þá eiga þessar stofnanir að setjast saman setja málaflokkinn á eina stofnun og hún á svo að fara með alþingismönnum að gera þær breytingar á lögum sem þurfa.“ 

Á vef RÚV er hægt að lesa fréttina.