Menntaverðlaun atvinnulífsins til Arion banka og Öldu
Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt í dag fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Arion banki er Menntafyrirtæki ársins og Alda hlýtur Menntasprotann 2025. Halla Tómasdóttir, forseti Íslands og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, afhentu verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór á Hilton Nordica í dag. Dagurinn er samstarfsverkefni Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka, þar á meðal Samtaka iðnaðarins. Þetta er í tólfta sinn sem dagurinn er haldinn. Yfirskrift menntadagsins í ár var Störf á tímamótum.
Menntafyrirtæki ársins 2025 er Arion banki
Í umfjöllun dómnefndar kemur fram að Arion banki reki öflugt og metnaðarfullt fræðslukerfi sem nýtir fjölbreyttar og nýjar leiðir til að virkja kraftinn í stórum og fjölbreyttum hópi starfsfólks. Starfsfólk þróar námsefni sjálft á frumlegan hátt, fræðsluvísitala er innbyggð í fræðslustarfið og vel er haldið utan um starfsþróun innan fyrirtækisins, svo fátt eitt sé nefnt. Með verkefni eins og „Konur fjárfestum!“ tengir bankinn að auki fræðslustarfið við samfélagslega ábyrgð. Ljóst er að stefnumiðuð og markviss vinna í fræðslumálum hjá Arion banka skilar sér í framsæknu og faglegu fræðslustarfi og þar af leiðandi ánægðu starfsfólki.
Hér er hægt að horfa á myndband frá afhendingu.
Menntasproti ársins er Alda
Alda býður upp á hugbúnaðarlausn með leikjavæddum örnámskeiðum sem efla vinnustaði í aðgerðum er varða fjölbreytileika og inngildingu, og stuðlar þannig að betra starfsumhverfi. Kjarninn í starfsemi Öldu er nýsköpun í fræðslu og menntun og með stuðningi gervigreindar er örfræðsluáætlun sérsniðin fyrir hvern vinnustað. Alda var stofnuð árið 2022 en lausnin var gefin út fyrir rúmlega ári og á þessum stutta tíma hefur náðst frábær árangur. Í umfjöllun dómnefndar kemur fram að Alda sé leiðandi í nýsköpun í fræðslu og menntun og leggur sín lóð á vogarskálarnar til að efla fjölbreytileika og inngildingu með gagnadrifnum fræðslulausnum á vinnustöðum og samfélaginu í heild.
Hér er hægt að horfa á myndband frá afhendingu.