Fréttasafn25. apr. 2022 Almennar fréttir Menntun

Menntaviðurkenningar til Samkaupa og Gentle Giants

Á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu í dag hlaut Samkaup viðurkenningu sem menntafyrirtæki ársins 2022 og Gentle Giants – Hvalaferðir á Húsavík hlaut viðurkenningu sem menntasproti ársins 2022. Menntaverðlaun atvinnulífsins eru veitt á árlegum Menntadegi atvinnulífsins. Þetta er í níunda sinn sem dagurinn er haldinn. Að deginum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Á myndinni hér fyrir ofan eru Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, Gunnur Líf Gunnarsdóttir, mannauðsstjóri Samkaupa og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Samkaup sem eru menntafyrirtækis ársins reka yfir 60 verslanir víðsvegar um landið og hjá fyrirtækinu starfa rúmlega 1.400. Samkaup leggur mikinn metnað í vera eftirsóknarverður vinnustaður með markvissri uppbyggingu starfsfólks þar sem lögð er áhersla á tækifæri þess til að eflast og þroskast bæði persónulega og í starfi. Í þessu skyni er unnið jöfnum höndum með skipulagða fræðslu innan fyrirtækisins en einnig í samstarfi við ytri fræðsluaðila þar sem starfsfólk getur stundað nám með vinnu og um leið skapað sér grunn til áframhaldandi náms síðar meir. 

Gentle Giants – Hvalaferðir á Húsavík sem eru menntasproti ársins 2022 býður uppá hvalaskoðunarferðir og aðrar sjó-tengdar upplifanir á Skjálfandaflóa. Í flotanum eru níu bátar, tveir eikarbátar og fimm hraðbátar og hefur fyrirtækið verið brautryðjandi á sínu sviði. Hjá fyrirtækinu starfa að jafnaði um 50 starfsmenn. Gegnum árin hefur starfsmannavelta verið lítil hjá Gentle Giants og að því marki sem störf fylgja árstíðarbundnum sveiflum hefur sama starfsfólkið komið til starfa aftur og aftur. Þetta staðfestir að sú áhersla sem félagið hefur lagt á starfsmannamál og þar með fræðslu og þjálfunarmál hefur skipt miklu um vellíðan starfsfólksins.

Vidurkenning1Frá afhendingu viðurkenningarinnar til Gentle Giants, talið frá vinstri, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Jóhanna Sigríður Svavarsdóttir, mannauðsstjóri, Stefán Guðmundsson, framkvæmdastjóri og Daniel Annisius, aðstoðarframkvæmdastjóri Gentle Giants.

Á vef SA er hægt að nálgast frekari upplýsingar.