Fréttasafn



24. ágú. 2020 Almennar fréttir Menntun

Metaðsókn í starfs- og verknám

Á forsíðu Morgunblaðsins er sagt frá því að metaðsókn sé í starfs- og verknám og rætt við Hildi Ingvarsdóttur, skólameistari Tækniskólans, um mikla aðsókn í starfs- og iðnnám við skólann. „Byggingagreinar hafa vaxið að meðaltali um 45% á tveimur árum.“ 

Hildur-IngvarsdottirÍ fréttinni segir að umsóknir hafi aldrei verið fleiri og óvíst að hægt verði að koma öllum sem vilja að í vetur, sem dæmi um sprengingu í einstaka námsgreinum nefnir Hildur að fyrir tveimur árum hafi verið 70 nemendur í námi við pípulagnir, en á komandi vetri verði þeir 140 í dagskóla og 40 í kvöldskóla. Mikið verkefni sé að koma sem flestum nemendum að og þegar líti út fyrir að 4-500 fleiri nemendur verði við nám á komandi misserum en í fyrra, en þá „erum við alveg sprungin,“ segir hún og bætir við að sömu sögu sé að segja úr fleiri skólum sem sinna verknámi, á borð við Borgarholtsskóla og Verkmenntaskólann á Akureyri. 

Fjölbreyttari hópur nemenda nú en áður

Þá kemur fram í fréttinni að unnið sé að því með Menntamálastofnun að finna lausnir fyrir þá sem ekki komast að. Áskorun sé að finna rétt jafnvægi milli staðarnáms og fjarnáms við þær aðstæður sem nú ríkja, en að farið verði eftir fyrirmælum sóttvarnayfirvalda með öryggi og velferð nemenda og starfsmanna að leiðarljósi. Þegar blaðamaður spyr Hildi um aukna fjárþörf vegna fjölda nemenda segist hún ekki hafa áhyggjur og vísar til tilkynningar frá ríkisstjórninni sem gefin var út 22. júní, þess efnis að framhalds- og háskólum verði tryggt nægt fjármagn til að „mæta metaðsókn“ í skólana, eins og segir á vef Stjórnarráðsins. Þá bendir Hildur einnig á að kynhlutverk iðngreina séu ekki eins föst og áður var, í greinum, sem áður höfðu nemendur af nær aðeins einu kyni, sé nú fjölbreyttari hópur nema.

Morgunblaðið, 24. ágúst 2020.