Fréttasafn



25. jún. 2021 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Metnaður og vilji atvinnulífsins að ná árangri í loftslagsmálum

„Útgáfan markar ákveðin tímamót varðandi loftslagsmálin á Íslandi. Þarna eru öll helstu samtök atvinnurekenda saman komin og standa saman að þessari útgáfu þar sem atvinnulífið rýnir í það hvað við getum lagt af mörkum. Samstaðan er auðvitað ekki sjálfgefin en hún undirstrikar metnað og vilja atvinnulífsins til þess að ná árangri í loftslagsmálum og ekki síður ábyrgð atvinnulífsins í þeim efnum,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og formaður Grænvangs í Morgunblaðinu vegna útgáfu Loftslagsvísis atvinnulífsins. Að vegvísinum stendur Grænvangur, samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir, ásamt Samorku, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Bændasamtökum Íslands og stjórnvöldum. 

Hindranir sem stjórnvöld þurfa að ryðja úr vegi til að flýta árangri

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að Loftslagsvegvísir atvinnulífsins eigi að stuðla að því að markmið um kolefnishlutlaust Ísland náist fyrir árið 2040 og í vegvísinum sé greint frá stöðunni í hverri atvinnugrein og tillögur til úrbóta settar fram. „Þetta er samantekt um það í fyrsta lagi hvaða árangur hefur náðst í þessum málum og hver markmiðin eru fyrir hverja grein. Þannig að um er að ræða markmiðasetningu en ekki síður umfjöllun um það hvaða hindrunum stjórnvöld þurfa að ryðja úr vegi til þess að flýta fyrir árangri.“ 

Árangur næst með góðu samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs

Sigurður segir í frétt Morgunblaðsins að árangur í loftslagsmálum náist ekki nema með góðu samstarfi stjórnvalda og atvinnulífsins. Ábyrgð atvinnulífsins sé að vera hluti af lausninni og ekki megi gleyma að lausnirnar verði til hjá fyrirtækjunum. „Það má segja að tvennt standi upp úr í vegvísinum. Til þess að ná árangri þarf annars vegar að fara í orkuskipti, sem útheimtir miklar fjárfestingar, og hins vegar þarf nýsköpun til að búa til nýjar grænar lausnir. Þetta kallar allt á fjárfestingar og hlutverk stjórnvalda er ekki síst að greiða fyrir þeim, að stuðla að nýsköpun á þessu sviði og að flýta fyrir fjárfestingum þannig að við náum árangri fyrr.“

Þá segir Sigurður vegvísinn ekki setja fram lausnir á öllum vandamálum heldur sé hann hugsaður sem fyrsta skrefið í rétta átt. Stefnt sé að því að fleiri útgáfur af honum komi út á næstu árum þar sem kafað verður enn frekar á dýptina.

Morgunblaðið , 24. júní 2021.

Morgunbladid-24-06-2021