Fréttasafn12. jún. 2019 Almennar fréttir Umhverfis og orkumál

Metnaður og vilji til að gera enn betur í loftslagsmálum

Verkefnið er að lyfta loftslagsmálum upp og það er auðvitað mikill áhugi hjá atvinnulífinu að gera betur í þessum efnum. Atvinnulífið hefur þegar áorkað miklu en það er mikill metnaður og vilji til að gera enn betur og meira. Þannig að markmið vettvangsins er annars vegar að halda til haga þessum árangri sem við hér á landi höfum náð og fjalla um það sem við viljum gera í framtíðinni sem lýtur ekki síst að markmiðum stjórnvalda um kolefnahlutlaust Ísland árið 2040. En síðan er það hin víddin í þessu sem er ekki síður mikilvæg, sem er að styrkja ímynd Íslands á þessu sviði og að auka útflutningsverðmæti sem þessu tengist og þá er ég að vísa í þekkingu sem hér hefur byggst upp, meðal annars á jarðvarma og endurnýjanlegri orku almennt séð, að miðla henni út og svo náttúrulega grænum lausnum sem hjálpar til við að draga úr losun í heiminum því eins og við vitum þá er vandamálið hnattrænt en ekki bundið við hvert land fyrir sig. Þetta kemur meðal annars fram í máli Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í viðtali Lindu Blöndal í þættinum Umhverfismál á Hringbraut. En Sigurður er annar af tveimur formönnum samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir sem undirritað var fyrir skömmu. 

Á vef Hringbrautar er hægt að horfa á viðtalið við Sigurð sem hefst á 10 mínútu.

SH-hringbraut2