Fréttasafn21. okt. 2015 Menntun

Metþátttaka í Boxinu

Átta lið frá átta skólum erum kominn í úrslit í framkvæmdarkeppninni Boxið og munu taka þátt í aðalkeppninni sem verður haldin í fimmta sinn í HR laugardaginn 31. október. Liðin koma frá eftirtöldum skólum: Fjölbrautaskóli Suðurlands, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Flensborgarskólinn, Menntaskólinn á Akureyri,  Menntaskólinn í Kópavogi, Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Hamrahlíð og Menntaskólinn við Sund

Í fyrra voru það 18 lið úr níu skólum sem sóttu um að taka þátt í keppninni þar sem að lið Menntaskólans í Reykjavík stóð uppi sem sigurvegari. Liðin þurfa að taka þátt í forkeppni sem sker út um hvaða átta lið það eru sem komast áfram í aðalkeppnina. Í ár er metþátttaka í keppnina en alls sóttu 29 lið frá 17 skólum um að taka þátt sem sýnir að keppnin er farin að vekja meiri athygli hjá framhaldsskólanemum.

Keppnin fer þannig fram að fyrirtæki úr ólíkum greinum iðnaðarins sjá um að útvega efni og  setja saman þrautir sem nemendur hafa hálftíma til að leysa. Til að reyna á mismunandi hæfni nemenda er reynt að hafa þrautirnar sem ólíkastar þar sem að nemendur þurfa að hugsa út fyrir boxið og láta reyna á hugvit sitt og verklag til að finna bestu lausnina.

Dæmi um þrautir sem lagðar hafa verið fyrir nemendur eru t.d. að byggja eins háan turn og hægt er úr burðarbitum úr súkkulaði, smíða krana með sem mestum togkrafti, nota 34 púsl til að setja saman skordýr í þrívídd, forritun og byggja brú sem þurfti að þola að lágmarki 50 kg. Við mat á lausnum ræður meðal annars tími, gæði lausnar og frumleiki. Þau fyrirtæki sem koma að keppninni í ár eru Marel, Rafal, Ísloft, Luxor, Jáverk, RadiantGames, Mannvit og Kjörís.

Markmiðið með keppninni er að vekja áhuga framhaldsskólanema á tækni, tækninámi og störfum í iðnaði og er keppnin samvinnuverkefni Samtaka iðnaðarins, HR, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra framhaldsskólanema.