Fréttasafn



14. nóv. 2016 Almennar fréttir Menntun

MH vann Boxið eftir harða keppni

Lið Menntaskólans við Hamrahlíð vann Boxið – framkvæmdakeppni framhaldsskólanna í ár, eftir harða keppni. Átta lið frá jafnmörgum framhaldsskólum kepptu til úrslita síðastliðinn laugardag í Háskólanum í Reykjavík. Lið Kvennaskólans Í Reykjavík varð í öðru sæti og lið Menntaskólans í Reykjavík í því þriðja. Vinningsliðið skipuðu Magdalena Guðrún Bryndísardóttir, Jessý Jónsdóttir, Ásmundur Jóhannsson, Unnar Ingi Sæmundarson og Ívar Dór Orrason. Að keppninni standa Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og Samband íslenskra framhaldsskólanema.

Boxið felst í því að leysa fjölbreyttar þrautir sem reyna á verklega og bóklega þekkingu, hugvit og verklag þátttakenda. Liðin fara í gegnum þrautabraut þar sem hver þraut er sérhönnuð af sérfræðingum fyrirtækja úr ólíkum greinum iðnaðarins með aðstoð fræðimanna HR. Meðal þeirra þrauta sem liðin glímdu við að þessu sinni var að verja egg fyrir falli úr þriggja metra hæð, byggja líkan af námuskipi úr tölvuleiknum EVE Online, smíða líkan af þrívíddarbyggingu prótíns og koma með hugmynd að nýrri matvöru. Liðin fóru á milli stöðva og fengu hálftíma til að leysa hverja þraut. Fyrirtækin sem lögðu þrautir fyrir nemendurna í ár voru CCP, ÍAV, Marel, Matís, ORF Líftækni, Orkuvirki, Trefjar og Verkís.

21 lið frá 13 skólum tóku þátt í forkeppninni sem haldin var í lok október. Átta lið komust áfram í aðalkeppnina. Það voru lið frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, Menntaskólanum í Reykjavík, Tækniskólanum, Kvennaskólanum í Reykjavík, Menntaskólanum að Laugarvatni, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Menntaskólanum í Kópavogi og Fjölbrautaskóli Suðurlands. Þetta er í sjötta sinn sem Boxið er haldið.  Markmið með Boxinu er að kynna og vekja áhuga nemenda í framhaldsskólum á verk- og tækninámi og fjölbreyttum störfum í iðnaði. Það var lið Menntaskólans á Akureyri sem sigraði í Boxinu í fyrra.

Á myndinni er Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, og Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, með sigurliði MH.