Fréttasafn27. jan. 2017 Almennar fréttir Menntun

Microbit vekur athygli í London

Íslenska útgáfan af Microbit verkefninu vakti mikla athygli á BETT sýningunni í London sem er ein stærsta árlega sýningin í tengslum við upplýsingatækni í skólastarfi í Evrópu. Fulltrúar verkefnisins frá Menntamálastofnun og Krakka-RÚV kynntu Microbit verkefnið sem hófst síðastliðið haust en um er að ræða forritanlegar smátölvur sem nemendur í 6. og 7. bekk í grunnskólum landsins hafa fengið til að læra forritun. Framgangur Microbit verkefnisins hér á landi hefur vakið mikla athygli í öðrum löndum Evrópu og hafa margar fyrirspurnir borist varðandi fyrirkomulag og árangur.  

Þátttaka í verkefninu hefur verið góð og hafa tæplega 10.000 nemendur þegar fengið Microbit tölvur. Í tengslum við verkefnið var efnt til forritunarleikanna, Kóðinn 1.0, sem er hýst á vefsvæði RÚV þar sem nemendur geta glímt við vikulegar áskoranir, sent inn lausnir og sótt fræðsluefni. Microbit verkefnið sem er stærsta einstaka aðgerðin sem ráðist hefur verið í til að efla forritunarkennslu á Íslandi er samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Menntamálastofnunar, RÚV, Samtaka iðnaðarins og fyrirtækja sem samtökunum tengjast.

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra: „Í mínum huga er forritunarkennsla í grunnskólum mikilvæg og það er ánægjulegt að kynning verkefnisins fari nú fram á BETT, í því fellst mikil viðurkenning fyrir verkefnið."“

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins: „Allir sem að verkefninu koma eru á einu máli um mikilvægi þess og viðtökur hafa sýnt okkur að nemendur eru tilbúnir að takast á við forritun og tengd viðfangsefni. Nú þurfa allir hagsmunaaðilar að leggjast á eitt við að koma forritun á dagskrá í grunnskólum landsins á varanlega hátt. Þar eru áskoranirnar fyrst og fremst að  koma forritun með formlegri og viðameiri hætti í námsskrá grunnskóla og skoða sérstaklega með hvaða hætti þarf að þróa menntun og undirbúning kennara sem takast á sama tíma við nýjar áskoranir.“

Á myndinni er Gunnar Ingi Magnússon frá Krakka-RÚV og Þröstur Bragason frá Menntamálastofnun en þeir kynntu Microbit verkefnið. Í bakgrunni sést í Ævar vísindamann sem hefur lagt verkefninu lið.