Fréttasafn



15. jún. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Mikið framfaraskref ef rammaáætlun nær fram að ganga

„Það er mikið framfaraskref að rammaáætlun sé komin þetta langt í þinginu eftir margra ára kyrrstöðu í orkuöflun í landinu. Það er mikilvægt að tillagan nái fram að ganga og í raun grunnforsenda þess að við náum loftslagsmarkmiðum Íslands og stefnu um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, þegar Morgunblaðið leitaði álits hennar á tillögum um breytingar á rammaáætlun 3 sem er til meðferðar á Alþingi.  

Auka þarf framboð á innlendri endurnýjanlegri orku

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að Sigríður tjái sig ekki um einstaka virkjanakosti en telji að vel hafi tekist til í tillögum meirihluta nefndarinnar. „Mikilvægast af öllu er að auka framboð á innlendri, endurnýjanlegri orku til að leysa af hólmi innflutta orkugjafa eins og olíu. Það er staðreynd sem margir virðast líta framhjá, hvort sem það er viljandi gert eða ekki. Ljóst er að þetta er eina leiðin fyrir Ísland til að ná markmiðum um full orkuskipti. Það hefur tafið framfarir hversu lengi rammaáætlun hefur staðið föst í þinginu og verður mikið framfaraspor þegar hún fær afgreiðslu.“

Ekki seinna vænna en að hefjast handa því það tekur tíma að virkja orkuna

Í Morgunblaðinu kemur fram að Sigríður veki athygli á því að lífskjör á Íslandi grundvallist meðal annars á nýtingu grænnar orku. „Síðan erum við með tvær aðrar stórar útflutningsstoðir, ferðaþjónustu og sjávarútveg, sem þurfa að fara í orkuskipti á næstu árum og áratugum. Til þess þarf aukið framboð á endurnýjanlegri orku. Það er ekki seinna vænna að hefjast handa því það tekur tíma að virkja orkuna og það vekur manni bjartsýni að sjá rammaáætlun komna á þennan stað.“ 

Til að vernda loftslagið þarf orkuskipti

Sigríður segir í Morgunblaðinu að treysta verði því lýðræðislega ferli sem rammaáætlun sé í og sé nú loksins að ljúka. Hún vekur athygli á þeim tækifærum sem í því felist fyrir ímynd Íslands ef markmið um að vera óháð jarðefnaeldsneyti náist. Hún segir að umhverfisvernd felist ekki aðeins í náttúruvernd heldur einnig í því að vernda loftslagið og það gerist ekki nema með orkuskiptum.

Morgunblaðið, 15. júní 2022.

Morgunbladid-15-06-2022